149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að gera hér að umræðuefni umhverfismál og þá aðallega mikilvægi atvinnulífsins í þeirri baráttu sem við stöndum nú í varðandi loftslagsmál og þá ógn sem okkur stafar af henni. Eitt af mikilvægustu hlutverkum stjórnvalda er að skapa umgjörð þar sem frelsið og fjölbreytnin nýtur sín til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Eitt af stærstu viðfangsefnunum þar er að skapa umgjörð sem gerir atvinnulífinu betur kleift að vera öflugur þátttakandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Árekstrar atvinnulífs og umhverfisverndar eru ekki náttúrulögmál. Þetta er manngerður og heimatilbúinn vandi sem er á okkar ábyrgð að leysa. Stjórnvöld geta t.d. brugðist við með því að ýta undir græna hvata, tryggja að losun sé í samræmi við ströngustu kröfur og búa til umhverfi sem auðveldar fyrirtækjum að taka umhverfissjónarmið í framleiðslu og framboð á vöru og þjónustu inn í myndina. Besta leiðin til að draga úr mengun er að tryggja að þeir sem valda henni greiði kostnaðinn.

Það er líka mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulífið taki höndum saman til að stuðla að almennri vitundarvakningu. Við vitum að ný og krefjandi úrlausnarefni eru gjarnan leyst með nýjum lausnum og þær lausnir eru mun líklegri til að verða til í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins þar sem nýsköpun og vöruþróun eru vænlegri til árangurs en eingöngu boð og bönn.

Sjálfbærni, samkeppni og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri og nú meira en nokkru sinni fyrr. Nýsköpun á sviði loftslagsmála getur t.d. orðið til þess að við finnum einhverjar óþekktar leiðir til að draga úr útblæstri eða fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu. Stjórnvöld eiga að búa til grundvöll, gott umhverfi til nýsköpunar á þessu sviði. Stjórnvöld hafa sagt sitt í þessum málum. Neytendur eru að vakna til vitundar en við förum ekki áfram nema atvinnulífið sé með í för og ég trúi því reyndar að þau séu mjög vel til þess fallin að draga vagninn hér.