149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Nú er það komið á daginn sem margir vöruðu við síðasta haust. Fyrirtækið sem Vegagerðin samdi við um dýpkun Landeyjahafnar ræður ekki við verkefnið svo vel sé. Sá sem hér stendur og margir fleiri, þeirra á meðal bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum, bentu nýjum vegamálastjóra á það í haust, bæði munnlega og skriflega, að tveir veigamiklir vankantar hefðu verið á útboði verksins. Í fyrsta lagi var verðið látið vega 65% í mati á tilboðum en tæknilegi þátturinn 35%. Með öðrum orðum réð verðið meiru en tæknileg geta viðkomandi til að framkvæma verkið.

Í öðru lagi var enginn áskilnaður um afkastagetu í útboðinu, þ.e. hversu miklu var hægt að afkasta í dýpkun á tímaeiningu. Dýpkun til opnunar á höfninni gat tekið eina viku eða sex vikur, allt eftir því hvað verktakanum hentaði á hverjum tíma eða hvaða tæki hann ætti þá stundina. Nákvæmlega þetta er að gerast núna.

Nú hefur verið unnið að dýpkun í Landeyjahöfn í tíu daga við prýðilegar aðstæður en enn sér ekki fyrir endann á því hvenær höfnin verður opnuð. Kunnáttumenn fullyrða að það fyrirtæki sem sá um dýpkunina síðustu þrjú árin hefði verið búið að opna höfnina fyrir löngu, enda notaði það dýpkunarskip sem er fimm sinnum stærra að bæði burði og afli en það skip sem verið er að nota núna. Því mætti líkja við að verið væri að grafa skurð með teskeið en ekki skurðgröfu.

Ég skora á Vegagerðina og samgönguyfirvöld að gera þá kröfu til verktakans að hann komi sér upp tækjum sem duga í verkið. Að öðrum kosti verði samningnum rift og ráðist í nýtt útboð. Þetta dugar ekki.