149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli á að í landinu eru tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög. Verkefnaskipting á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga er nokkuð skýr og kveðið á um hana í lögum settum á hinu háa Alþingi. Mikilvægt er að hvort stjórnsýslustigið um sig beri virðingu fyrir hinu og að samskipti þar á milli séu á jafnræðisgrundvelli.

Fréttir um að framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði fryst næstu tvö árin og muni með því lækka um u.þ.b. 2,8 milljarða komu eðlilega mjög á óvart þar sem framlögin eru bundin í lög sem eru ákveðin prósenta af tekjum ríkissjóðs og því ekki svo einfalt að frysta framlagið eins og fréttir bárust af. Sveitarstjórnarstigið með Samband íslenskra sveitarfélaga í fararbroddi hefur líka brugðist við með skilaboðum um að við þetta verði ekki unað. Fjármálaráðherra hefur að hluta til dregið áformin til baka og sagt að um tillögu að viðræðum sé að ræða.

Ég vil undirstrika hér að viðræður krefjast aðkomu beggja stjórnsýslustiga á jafnræðisgrundvelli. Fulltrúar ríkisins þurfa að koma saman ríkisfjármálaáætlun en mega ekki gleyma því að tekjur ríkisins koma að miklum hluta til í gegnum sveitarfélögin sem jafnframt veita nærþjónustu til íbúa landsins. Fyrir utan þessa óvæntu sendingu úr Stjórnarráðinu sjá sveitarfélögin fram á aflabrest í uppsjávar- og humarveiðum, samdrátt í ferðaþjónustu, átök á vinnumarkaði með verkföllum og öðru tilheyrandi. Því vil ég undirstrika að gagnkvæm virðing og samtal er grundvöllur þess að hið opinbera, með báðum stjórnsýslustigunum, geti unnið saman að hagstjórn landsins svo vel sé.