149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

[10:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ráðherrar fjármála og sveitarstjórnarmála hafa kynnt hugmyndir um að lækka framlög ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um 3,3 milljarða á næstu tveimur árum. Framlag ríkisins hefur einkum runnið í þjónustu við fatlað fólk og til verr stæðari sveitarfélaga. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið að hann teldi of mikið gert úr þessu máli en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur brugðist mjög hart við þessum hugmyndum.

Að sögn hæstv. fjármálaráðherra er þetta hugsað sem framlag sveitarfélaganna inn í þá stöðu sem uppi er í efnahagsmálum á Íslandi og sagðist hæstv. ráðherrann hafa meiri áhyggjur af öðrum þáttum, nefndi stöðu flugmála, kjaraviðræður og loðnubrest. Þá er rétt að líta til þess að þessi atriði, ekki hvað síst loðnubresturinn, bitna að sjálfsögðu hlutfallslega miklu harðar á ákveðnum sveitarfélögum en á efnahagslífinu í heild, sérstaklega á sveitarfélögum á Austur- og Norðausturlandi.

Því spyr ég hæstv. ráðherra, í ljósi viðbragða Sambands íslenskra sveitarfélaga og þeirrar alvarlegu stöðu sem nú er komin upp hjá mörgum sveitarfélögum á Austur- og Norðausturlandi, hvort ekki sé rétt að draga í land með þessi áform, hætta við þau. Sé sú ekki raunin vil ég spyrja hvort hæstv. ráðherra sé ekki tilbúinn til að lýsa því hvernig hann mun þá og ríkisstjórnin koma til móts við þessi tilteknu sveitarfélög sem verða fyrir alveg sérstökum skakkaföllum vegna þeirrar stöðu sem uppi er.