149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

[10:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég er ekki alveg viss um hvernig ég á að skilja síðustu athugasemd hæstv. ráðherra. Það hefði mátt skilja hana sem svo að ef sveitarfélögin ætluðu ekki að fallast á þennan niðurskurð á framlagi í jöfnunarsjóð yrðu þau látin gjalda þess einhvers staðar annars staðar. Það er þó ánægjulegt að heyra að ríkisstjórnin hyggist ekki taka ákvörðun í þessu máli án frekara samráðs við fulltrúa sveitarfélaganna eins og beðið hefur verið um af þeirra hálfu.

En í ljósi þess að hæstv. ráðherra setur þessa hluti í samhengi, stöðuna í efnahagslífinu, m.a. með tilliti til loðnubrests og kjarasamninga, er þá ekki eðlilegt að mati hæstv. ráðherra að líta líka sérstaklega til stöðu þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir sérstökum skakkaföllum af þeim sökum? Ef ríkið ætlar að draga úr framlögum sínum til sveitarfélaga m.a. vegna loðnubrests, er þá ekki rétt að menn hugi sérstaklega að því að rétta um leið stöðu sveitarfélaga sem verða fyrir mun meiri skakkaföllum en ríkið hlutfallslega af þessum sökum?