149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Smára McCarthy, fyrir að taka loftslagsmál til umræðu hér á Alþingi. Í mínu fyrra starfi hafði ég lengi kallað eftir að sett yrði fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem væri fjármögnuð. Eitt af megináhersluverkefnum mínum strax í byrjun sem ráðherra var að láta vinna slíka áætlun sem síðan var kynnt sl. haust.

Nú hafa komið fram fjölmargar umsagnir við þessa áætlun með góðum ábendingum sem nýtast vel við gerð annarrar útgáfu áætlunarinnar sem gefin verður út síðar á árinu. Stjórnvöld vinna nú markvisst og ötullega að loftslagsmálum. Starfshópur skipaður fulltrúum fjögurra ráðuneyta undir forystu Sigurðar Inga Friðleifssonar hjá Orkusetri hefur unnið að útfærslu á öðrum meginþætti aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar, þ.e. orkuskiptum í samgöngum. Hópurinn hefur unnið greiningu á stöðu innviða vegna orkuskipta og fyrstu verkefni sem byggð eru á vinnu hópsins verða sett af stað nú í apríl. Landgræðslunni og Skógræktinni var falið að útfæra í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið hinn meginþátt áætlunarinnar, kolefnisbindingu. Nú í vor verður sú vinna einnig kynnt, þar með talið endurheimt votlendis.

Almenningssamgöngur og breyttar ferðavenjur skipta miklu máli í loftslagsmálum. Í febrúar kynnti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra grunn að fyrstu heildarstefnu ríkisins um almenningssamgöngur fyrir allt landið. Starfshópur hefur skilað tillögum um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið hjólreiðastíga og borgarlínu, og ríkið samþykkti að veita 800 millj. kr. í undirbúning borgarlínunnar.

Hvað varðar aðrar aðgerðir í áætluninni er einnig margt að gerast. Ég get nefnt að kolefnisgjald hefur verið hækkað í áföngum síðan ríkisstjórnin tók við. Vinna stendur yfir vegna svartolíu. Fram undan er vinna við reglugerð um bann við urðun á lífrænum úrgangi og reglugerð hefur verið sett varðandi hleðslu rafbíla við nýbyggt atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Þar með höfum við tryggt að gert er ráð fyrir hleðslu við allt nýbyggt húsnæði á landinu.

Undirritaður hefur verið samningur um viðamikla umhverfisfræðslu í skólum með áherslu á loftslagsbreytingar og vinna er hafin við breytingar á landsskipulagsstefnu með áherslu á loftslagsmál í skipulagi.

Ég vil einnig nefna að vinna við loftslagssjóð er í fullum gangi og samstarf hefur verið tekið upp við Rannís vegna hans.

Líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætluninni skal Stjórnarráðið setja sér loftslagsstefnu og verið er að leggja lokahönd á gerð hennar. Gripið verði til aðgerða til að draga úr losun og Stjórnarráðið kolefnisjafnað.

Fjölmörg önnur verkefni sem varða loftslagsmál eru auk þess í vinnslu án þess að vera undir hatti aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Stefna um innkaup hins opinbera á matvælum er sem dæmi á lokametrunum, vinna loftslagsráðs í fullum gangi og á morgun mun ég kynna í ríkisstjórn frumvarp um breytingu á lögum um loftslagsmál þar sem m.a. er lagt til að skylda allar stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins til að setja sér loftslagsstefnu og draga úr losun. Undanfarna mánuði hefur enn fremur verið unnið að því að koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir og er gert ráð fyrir formlegri stofnun hans innan skamms.

Markmið samstarfsvettvangsins er í fyrsta lagi að bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi okkar til þeirra, t.d. varðandi endurnýjanlega orku. Í öðru lagi að stjórnvöld og atvinnulíf vinni í sameiningu að metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum í samræmi við markmið stjórnvalda, þar með talið kolefnishlutleysi árið 2040. Ég hef auk þess fundað með fulltrúum þeirra fyrirtækja hér á landi sem ábyrg eru fyrir mestri losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis. Hef ég leitað eftir upplýsingum um til hvaða aðgerða þau hyggjast grípa og hvatt þau til að koma í þá vegferð með okkur að ná kolefnishlutleysi. Þau hafa tekið vel í þá málaleitan.

6,8 milljarðar kr. munu sérstaklega renna til margvíslegra aðgerða í loftslagsmálum hér á landi næstu árin. Þetta er gjörbreyting frá því sem var áður og markar straumhvörf í umhverfisvernd á Íslandi. Á sama tíma vil ég nefna að heildarfjárhæð ríkisins til aðgerða sem tengjast loftslagsmálum er auðvitað hærri. Þannig fara t.d. árlega um 1,8 milljarðar kr. til almenningssamgangna á landi, á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og margvíslegar aðrar aðgerðir eru fjármagnaðar með öðrum hætti en af þessum 6,8 milljörðum.

Í umræðunni hefur því verið haldið fram að IPCC telji að 2,5% af vergri þjóðarframleiðslu ættu að renna til loftslagsmála. Ég vil taka fram að sú tala á við verga þjóðarframleiðslu alls heimsins og hvað varðar umbreytingu á orkukerfum. Þessi prósentutala nær yfir fjárfestingar sem IPCC telur nauðsynlegar, ekki bara frá opinberum aðilum heldur einmitt og ekki síður frá fyrirtækjum.

Virðulegi forseti. Það hefur verið einstakt að fylgjast með þeirri fjöldahreyfingu sem farin er af stað og breiðist nú út um alla heimsbyggðina þar sem ungt fólk krefst stóraukinna aðgerða í loftslagsmálum. Um daginn hitti ég skipuleggjendur loftslagsverkfallanna hér á landi þar sem við ræddum þessi mál. Það var mjög góður fundur. Loftslagsmálin eru stóra mál okkar tíma og samstaða á sviði stjórnmálanna og í samfélaginu öllu er grundvallaratriði til að ná árangri.