149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Öllum kannski til furðu þá dáist ég að mótmælendum og þess vegna dáist ég sérstaklega að hinni 16 ára gömlu Gretu Thunberg sem settist fyrir utan þinghúsið í Svíþjóð til þess að mótmæla loftslagsbreytingum. Í síðustu viku hvatti hún fólk áfram þegar búið var að boða til 1.300 mótmæla í 98 löndum en niðurstaðan varð 1.700 mótmæli í 100 löndum.

Börnin eru að kenna okkur og segja okkur að við séum umhverfissóðar. Því miður er staðreyndin sú að ef við ætlum ekki að kæfa okkur í mengun lofts þá sennilega drekkjum við okkur í eigin úrgangi. Loðnan er horfin og spurningin er: Hvarf hún vegna þess að við ofveiddum hana, útrýmdum henni, eða hvarf hún vegna þess að við erum að menga svo mikið og hlýnun jarðar veldur því? Hvort sem er, er það okkur að kenna. Við erum að útrýma þúsundum dýrategunda og því miður virðumst við í þessum þingsal ekki geta ráðið við það hvernig við ætlum að fara að þessu.

Það er ekki neinum blöðum um að fletta að mesta mengunin á Íslandi kemur frá fiskiskipum, ferðaiðnaðinum, skemmtiferðaskipum og þar virðist ganga mjög hægt að gera nokkurn skapaðan hlut. Við erum voða stolt af því að setja niður eitt tré en erum sennilega á sama tíma að menga og eyðileggja ekki bara hundruð heldur þúsundir, andvirði þúsunda trjáa. Við erum alltaf að bíta í skottið á sjálfum okkur og þess vegna er það alveg á hreinu, eins og unga fólkið segir, (Forseti hringir.) að þau munu halda áfram að efna til verkfalla og mótmæla á föstudögum (Forseti hringir.) þangað til stjórnvöld taka þetta til sín og gera eitthvað í málunum. Það erum við. Við eigum að gera eitthvað í málunum.