149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er mér mikil ánægja að mæla fyrir þessu frumvarpi um strandveiðar. Hér liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, frá atvinnuveganefnd. Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:

a. Orðin „og aflaheimilda á tímabil og landsvæði“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.

b. 3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla, að ufsa undanskildum, verði náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.

c. Við 3. málsl. 4. mgr. bætist: sbr. þó 9. mgr.

d. Á eftir 6. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Heimilt er hverju skipi að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Fiskistofa skal auglýsa árlega eftir umsóknum um leyfi til strandveiða. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa í því magni sem ráðherra ákveður með reglugerð ár hvert án þess að sá afli teljist til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips gilda eftirtalin skilyrði:

a. Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.

b. Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. þó 2. málsl. 9. mgr.

Sé heimild skv. 8. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.

Og 2. gr. hljóðar svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Með þessu frumvarpi fylgir svohljóðandi greinargerð:

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þ.e. ákvæði laganna um strandveiðar.

Strandveiðar hafa verið stundaðar frá því í júní 2009. Kerfið hefur gengið upp eins og lagt var upp með og reynst nýbreytni innan stjórnkerfis fiskveiða. Frá árinu 2010 hafa að meðaltali 674 bátar stundað strandveiðar ár hvert.

Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi hafa veiðarnar verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilt er á sem skemmstum tíma þar til leyfilegum heildarafla á viðkomandi svæði hefur verið náð. Talið hefur verið að af þessu hafi getað stafað aukin slysahætta.

Við gerð þessa frumvarps hefur verið leitast við að nýta þá reynslu sem skapaðist við tímabundna breytingu á ákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og gerð var á vorþingi 2018. Sú tímabundna breyting fól í sér að hver bátur gat stundað strandveiðar í 12 daga í hverjum mánuði svo lengi sem ráðstöfuðum heildarafla var ekki náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setti um strandveiðar fyrir árið 2018. En með þessu frumvarpi er áformað að taka mið af þeirri reynslu og lögfesta ákvæði með svipuðu efni varanlega með það að markmiði að bæta umhverfi strandveiða og auka öryggi sjómanna á strandveiðum.

Með frumvarpinu er lagt til að breytt verði ákvæði 6. gr. a laga nr. 116/2006, sem fjallar um strandveiðar á þann veg að það verði með svipuðu sniði og ákvæði til bráðabirgða sem lögfest var á síðastliðnu sumri.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru, eins og áður segir, að gert er ráð fyrir að hverju strandveiðiskipi verði heimilt að stunda strandveiðar í 12 daga innan hvers mánaðar í fjóra mánuði á ári, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Strandveiðar verða háðar sérstöku leyfi Fiskistofu með sama hætti og verið hefur.

Það verða engar breytingar gerðar á svæðaskiptingu. Ráðherra mun áfram kveða nánar á um skiptingu landsvæða með reglugerð og við þessi svæði miðast skráning skipa. Sú breyting verður gerð að aflaheimildum verður ekki lengur skipt á landsvæðin eða tímabil heldur miðað við að heimilt verði að stunda veiðar frá öllum landsvæðum þar til veitt hefur verið það heildaraflamagn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.

Ekki er gert ráð fyrir að ráðherra geti stöðvað veiðar þegar áætluðu aflamagni er náð eins og var samkvæmt umræddu bráðabirgðaákvæði sem lögfest var með lögum nr. 19/2018 og heldur ekki að Fiskistofa geti stöðvað veiðar á einstökum svæðum þegar áætluðu aflamagni er náð eins og var samkvæmt eldri reglum.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofa skuli stöðva strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa, að frátöldum ufsa, fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur fyrir hvert ár.

Áfram verða í gildi sömu reglur um að sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi til strandveiða frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili.

Einnig er miðað við að reglur um heimilisfesti verði óbreyttar eins og þær voru fyrir gildistöku laga nr. 19/2018, þ.e. að leyfi skuli veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Enn fremur er gert ráð fyrir að umsóknarferli um leyfi til veiðanna verði með þeim hætti að Fiskistofa auglýsi árlega eftir umsóknum með svipuðum hætti og verið hefur.

Þá eru í frumvarpinu svipaðar reglur og voru í áðurnefndu ákvæði til bráðabirgða, sem lögfest var með lögum nr. 19/2018, um að hverju strandveiðiskipi sé heimilt að landa ufsa í því magni sem ráðherra ákveður með reglugerð ár hvert án þess að sá afli teljist til heildarafla eða hámarksafla hverrar veiðiferðar. Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips skulu gilda eftirtalin skilyrði: 1) Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann sé veginn sérstaklega og skráður. 2) Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum.

Sé heimild þessi nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.

Með frumvarpinu er því gert ráð fyrir að andvirði selds ufsa skiptist milli útgerðar og sjóðs skv. lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla í hlutfallinu 80/20.

Það er ekkert hámarksaflamagn á ufsa sem heimilt er að veiða á strandveiðitímabilinu án þess að sá afli reiknist til aflamarks heldur miðað við að ráðherra ákveði það með reglugerð fyrir ár hvert. Gera má ráð fyrir að ráðherra ákveði það með reglugerð um veiðar í atvinnuskyni sem sett er fyrir hvert fiskveiðiár.

Nefndin telur brýnt að málið verði afgreitt fyrir nýtt strandveiðitímabil. sem hefst 1. maí nk.

Frumvarpið kemur til nánari umfjöllun í nefndinni eftir 1. umr. og gefst þar svigrúm til að skoða einstaka þætti þess betur.

Ég vil aðeins, til að glöggva menn á því sem hefur verið í strandveiðum undanfarin ár, nefna að sumarið 2018 var tíunda sumarið sem strandveiðar voru heimilaðar. Þá var sú breyting gerð á árinu 2017, að það mátti veiða 10.200 tonn af óslægðum, kvótabundnum botnfiski fyrir allt landið og hver bátur fékk 12 veiðiferðir á mánuði. Á síðasta ári mátti veiða 700 tonn af óslægðum ufsa og þá fengu útgerðirnar 80% af sölunni og VS-sjóðurinn 20%. Breytt fyrirkomulag um að heimila 12 veiðiferðir á mánuði í fjóra daga í viku fór almennt mjög vel í sjómenn og það voru alls níu bátar sem náðu því að fara í 48 róðra sem þessir 12 dagar sinnum fjórir mánuðir gáfu möguleika á.

En strandveiðiflotinn á síðasta ári náði ekki að fullnýta heimildir sínar. Aflinn var um 9.380 tonn, eða 820 tonnum undir heimildum. Heimildir til að veiða ufsa í svokallaðan VS-sjóð voru heldur ekki fullnýttar. Það voru veidd 390 tonn og á síðasta ári voru gefin út 558 leyfi til strandveiða, sem er 46 leyfum færra en árið 2017. Þess má geta að af þeim lönduðu 548 bátar afla.

Flestir voru strandveiðibátar á einni vertíð árið 2012. Þá náði hámarki í fjölda 761 bátur. Bátunum á strandveiðum hefur því fækkað um 16,7% á síðastliðnum tveimur vertíðum. Flest leyfi voru gefin út á A-svæði. Í fyrra voru þau 205. Á svæði B voru gefin út 109 leyfi, á svæði C voru gefin út 121 leyfi og á svæði D voru gefin út 123 leyfi. Alls fóru strandveiðibátar í fyrrasumar í um 15.000 róðra þar sem aflinn var að meðaltali 655 kíló á dag. Frá upphafi strandveiða hefur dagsafli ekki verið meiri.

Afli strandveiðibáta í fyrra var að meðaltali 17,8, sem var 1,3 tonnum meira en árið 2017. Fjöldi báta þar sem afli var umfram 20 tonn var 229 sem var 24 bátum fleiri en árinu á undan.

Ég tel að við séum að þróa strandveiðikerfið í rétta átt með þessu frumvarpi, festa það til ótímabundins tíma í lögum og það sé mikil framför fyrir þessa grein í sjávarútvegi, smábáta vítt og breitt í kringum landið, og mikið öryggismál fyrir sjómenn að geta valið daga innan hvers mánaðar þegar gæftir eru góðar, veður góð, og líka til þess að dreifa hráefninu með sem bestum hætti inn á fiskmarkaði og í vinnslu. Þetta hefur allt reynst vera með jákvæðum formerkjum, svo að ég tel að þetta fyrirkomulag hafi svo sannarlega sýnt að það sé komið til að vera, þó að ég sé alls ekki að segja að ekki megi gera bætur á því og þróa það.

Þetta er eins og margt annað sem við fjöllum um hér á Alþingi lifandi plagg. Það eru ýmsar hugmyndir uppi um að skoða möguleika á því að færa til tímabil eftir svæðum, hvað hentar betur, að byrja á einu svæði frekar en öðru og enda þá fyrr, og öfugt. Það er margt í þessu sem ég held að við höldum bara áfram að ræða og velta fyrir okkur.

En mér finnst líka mjög ánægjulegt hversu breið pólitísk samstaða hefur náðst um þetta mál og skilningur á því að gera breytingar á kerfinu, sem hefur vissulega sýnt sig og sannað; það var eftirspurn eftir því þegar það var sett á laggirnar árið 2009. Og vissulega teljum við Vinstri græn að þetta sé barnið okkar, þó að nú eigi allir flokkar þetta barn og haldi áfram að horfa á það vaxa og dafna inn á fullorðinsár og hafa lagt sitt af mörkum við að þróa þetta kerfi. Það er ekki bara gott fyrir sjávarútveginn að hafa fjölbreytni í greininni, heldur er það líka ákveðin menningararfur að gera út á minni bátum í sjávarplássum vítt og breitt um landið.

Ég held að við eigum að gera allt til þess að ýta undir að ungt fólk máti sig við sjómennsku með því að geta byrjað að róa á strandveiðum með minni tilkostnaði en að fara að kaupa sér aflaheimildir dýru verði eins og veruleikinn er í dag ef menn ætla að fara að kaupa bát og aflaheimildir til að standa undir rekstri og atvinnu.

Ég vísa þessu máli til umfjöllunar í atvinnuveganefnd og þar munum við kalla inn gesti. Vonandi heldur þessi góða samstaða áfram um að geta afgreitt málið tímanlega fyrir strandveiðitímabilið sem hefst 1. maí nk.