149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og vil þá hvetja til þess að atvinnuveganefnd beiti sér fyrir því að unnin verði skýrsla, þá jafnvel ekki fyrr en eftir komandi strandveiðivertíð, sumarið. Og að það verði búið þannig um hnútana í frumvarpinu að það verði eitthvert kerfi þannig að menn taki stöðuna reglulega, jafnvel árlega.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að eins og ytri aðstæður eru núna þá hef ég engar áhyggjur af því að aflaheimildirnar klárist áður en allir hafa nýtt sína 12 daga. En það þarf ekki svo miklar breytingar á ytra umhverfinu til að svo verði. Þess vegna vil ég hvetja nefndina til að huga að einhverjum leiðum til þess að tryggja lágmarkshlutdeild allra svæða, t.d. prósentu af heimildum hvers árs eða það að eitt svæði geti t.d. ekki farið umfram 50% af öllum heimildum, eða eitthvert svæði fari ekki undir 15%. Þetta eru bara tölur algerlega úr lausu lofti gripnar. Það verði farið yfir þessa möguleika. Ég átta mig ekki á því hvort það eru miklir eða litlir möguleikar til þess að setja svona reglur sem raunverulega ganga upp. Auðvitað eru hagsmunir einstaklinga miklir en stærstu hagsmunirnir í strandveiðikerfinu eru hagsmunir byggðarlaga, smærri byggðarlaga, margra brothættra byggða. Ég held að það séu þeir hagsmunir sem þurfi dálítið að vega og meta í útfærslunni á kerfinu.

Svo langaði mig að spyrja hv. þingmann hvaða áhrif sú breyting hafi að nú er stöðvunarheimildin hjá Fiskistofu en ekki ráðherra.