149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum rætt þessi mál og einnig við greinina sjálfa, eins og á síðasta ári varðandi það að halda svæðaskiptingunni áfram, að það sé mikið byggðasjónarmið líka að hafa þessa svæðaskiptingu til þess að bátar þurfi í upphafi strandveiða að ákveða sig hvar þeir ætla að vera og geti ekki flakkað á milli svæða í framhaldinu, að það sé ákveðin byggðafesta fólgin í því. Flestir strandveiðimenn vilja nú vera næst heimili sínu. Og það hefur verið raunin, held ég.

Menn höfðu áhyggjur af því í fyrra að sjómenn myndu færa sig mikið yfir á A-svæðið þar sem væri bara einn pottur. Menn töldu að sjómenn gætu aflað betur þar eða að þar væri betra veður, sem reyndist nú langt í frá vera raunin. Þess vegna var í fyrra sett inn í frumvarpið að menn þyrftu að vera þar sem þau voru skráðir nokkrum dögum áður en að strandveiðitímabilið hófst.

Það var metið þannig að þess þyrfti ekki núna, þetta yrði bara með sama hætti og verið hefur frá árinu 2009, að menn væru á því svæði þar sem þeir væru með lögheimili og þyrftu þá að ákveða það í upphafi tímabilsins.

Ég tel að innan greinarinnar séu menn alveg í jafnvægi með þessa hluti og telji ekki að neitt ójafnvægi verði milli svæða. Það sé komin ákveðin ballest í lestina, eins og segja má á sjómannamáli, að menn sæki fyrst og fremst á þá staði sem þeir eru kunnugir og hafa verið á og haldi því áfram í trausti þess að þeir hafi 12 daga hvar sem er.