149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:22]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr og greinargóð svör, sem hún veitir fúslega og einbeitt.

Ég held nú að það eigi við um sjómenn eins og aðra að þeir víla ekki fyrir sér fjarlægðir og þeir munu leita þangað þar sem aflamöguleikinn er bestur. Þess vegna er þetta kannski örlítið áhyggjuefni þó að þetta hafi sloppið ágætlega til í fyrra.

Ég er með tvær spurningar. Það er þetta með veiðidaga. Nú er heimilt að fara og sækja í fjóra daga. Var rætt um það í atvinnuveganefnd eða metið hvort ástæða væri til þess að hreyfa þessa daga eitthvað til? Umræða var á einhverju stigi um að heimila hugsanlega sunnudagana, með tilliti til markaða og markaðarins á komandi viku. Var það eitthvað rætt í þessu tilliti?

Og síðan vildi ég fá viðhorf formanns atvinnuveganefndar: Nú sóttu færri bátar strandveiðarnar í fyrra en áður. Ástæðurnar fyrir því vita menn svo sem ekki. En er það mat nefndarinnar eða formannsins að hin nýja löggjöf muni geta haft hvetjandi áhrif á að fleiri bátar sæki inn í þennan flokk veiða?