149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:37]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur verið hér varðandi þetta frumvarp. Mér leikur aðeins forvitni á að vita eitt; þegar maður blaðar í gegnum greinargerð kemur fram að að meðaltali hafi 674 bátar stundað strandveiðar ár hvert frá árinu 2010. Síðan þegar maður blaðar áfram í gegnum greinargerðina eru þessir strandveiðibátar allt í einu orðnir að strandveiðiskipum. Þetta hljóta að vera mistök.

Mér leikur einnig forvitni á að vita stærðarmörkin á strandveiðibátunum. Ég held að þetta séu allt bátar en ekki skip, alla vega á þeim stað sem ég kem frá eru einhver mörk þar á milli. Mig grunar að hv. þm. Sigurður Páll Jónsson viti nú meira en flestir um það. Það væri gott að fá svar við því í fyrra andsvari. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, alla vega ekki í bili. Mér leikur forvitni á að vita hvað er rétt varðandi þessa báta og skip. Þetta hlýtur að vera einhver vitleysa með strandveiðiskipin.