149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:38]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvenær er bátur skip og hvenær ekki? Nú göngum við til skips, segir einhvers staðar. Ég reikna með að þetta sé prentvilla. Ég held að þetta sé ekki frágangssök í greinargerðinni. Í sambandi við stærðartakmarkanir er það bara opið hverjir mega fara á strandveiðar, held ég.

Hitt er svo annað mál að sá sem fær að gera út á þennan veiðiskap verður kannski aðeins að setja það niður fyrir sér hvort það borgi sig fyrir hann að fara og veiða 700 kíló á dag í 12 daga í mánuði ef guð lofar góðu veðri. Það tel ég hæpið þegar bátar eru komnir yfir vissa stærð, bara út af útgerðarkostnaði. Sjálfur á ég 12 tonna bát sem ég prófaði að fara á strandveiði á. Ég sagði eftir það tímabil að ég hefði ekki efni á því. Þannig að ég held að það sé bara opið með stærðartakmörkunina, að það sé takmarkslaust.