149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:40]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski leið fyrir trillukarla, þ.e. ef maður getur ekki haft sig fram úr á strandveiðar að skella sér á þing, en ég held að það hafi kannski ekki verið ástæðan.

Mig langar ræða um aflann, og það hefur komið fram fyrr í umræðunni varðandi svæðaskiptinguna og áhyggjur annarra þingmanna sem búa á öðrum svæðum en á norðvestursvæðinu.

Það er ansi fróðlegt að sjá að sá bátur sem veiðir mest á svæði A veiðir tæp 50 tonn og er í 48 daga. Sá sem er á svæði B veiðir 36 tonn í 46 daga. Sá sem er á svæði C er með 48 tonn og er í 48 daga og sá sem eru á svæði D veiðir 40 tonn og er í 41 dag. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að menn megi bara veiða 700 kíló á dag. Sums staðar fara menn greinilega yfir það.

Heildaraflinn 2017 og 2018 er þarna svipaður, um 9.800 tonn. Ég lýsi áhyggjum mínum við hv. þingmann varðandi það og beini því til nefndarinnar að menn velti því fyrir sér, eins og aðrir hv. þingmenn hafa komið inn á varðandi þessa svæðaskiptingu, hvort það sé nauðsynlegt að hafa eitthvert þak á svæðunum. Veðurfar, fiskgengd og annað getur náttúrlega haft veruleg áhrif, en samt sem áður benda tölurnar til þess að þeir sem róa á þessum svæðum séu alla vega með svipað hámark.