149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta andsvar. Í sambandi við stærðartakmarkanirnar þá minntist ég ekki á það áðan að það eru að hámarki fjórar rúllur á hvern bát, þannig að það takmarkar veiðarfæramagnið.

Varðandi áhyggjur vegna skiptingar svæða og væntanlega líka að það sé bara einn pottur, þá hef ég heyrt það og get alveg skilið það. Það var mikið til umræðu fyrir vorið í fyrra að svæði A myndi taka lungann af pottinum áður en hin svæðin kæmust í almennilegt fiskirí. Reynslan sýnir að það gekk alveg upp. Þingmaðurinn taldi þarna upp þá sem voru aflahæstir og virtust fá að jafnaði upp undir 1 tonn í róðri, en ufsinn er færri þorskígildi. Væntanlega hafa þeir verið með einhvern ufsa í bland eða alla vega í sumum róðrum, ég veit það ekki. Þorskígildi ufsa er það lítið að maður landar fleiri kílóum í staðinn. Ég tel að það sé svarið. Ég man ekki hvort spurningarnar voru fleiri. — Nei. Þá er þetta bara klappað og klárt.