149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:47]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, um strandveiðar, sem atvinnuveganefnd í heild sinni leggur fram.

Það var í fyrra að við samþykktum á þingi umdeilt frumvarp um strandveiðar með breytingum sem á að halda áfram með samkvæmt þessari tillögu. Helstu breytingar urðu þær að veiðidagarnir voru bundnir við 12 daga hvers báts í hverjum mánuði þessa fjóra mánuði strandveiðitímabilsins og gilti það uns hámarksafla væri náð. Einnig var ákvæði sem heimilaði strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla og sá afli myndi þá ekki teljast til viðmiðunar innan hámarksafla.

Uppleggið í þessu frumvarpi er að við höldum áfram með þetta kerfi, reynum annað ár til viðbótar, en með þeirri breytingu að við bætum við 800 tonnum í hámarksaflann auk þess sem við bætum líka við hámarksafla í ufsa. Þetta gerum við í þeirri vissu að árið í fyrra kom nokkuð vel út. Vissulega er þetta alltaf áhætta. Helsta og sterkasta gagnrýnin sem kom fram í fyrra var að strandveiðimenn á B-, C- og D-svæði óttuðust að þetta væri dauðadómur yfir kerfinu þar sem bátar myndu flykkjast yfir á A-svæðið af því að það gæfi meira af sér og heimildir tímabilsins myndu nást strax á fyrstu tveim mánuðunum, þeir myndu brenna inni á þeim tíma sem fiskur gæfist, á þeim mánuðum fyrir austan og suður undan landinu.

En hvað um ytri aðstæður? Það voru ýmsar ástæður sem urðu til þess að heildarpotturinn náðist ekki. Það veiddust um 9.700 tonn og heildaraflinn var leyfður 10.200 tonn. Raunin varð sú að þetta gekk mjög vel. Kannski voru einhverjar aðstæður sem urðu til þess að potturinn náðist ekki, það var bæði verra veður og annað, síðasta sumar var ekki það bjartasta í manna minnum. En síðan var líka fækkun báta í heild sinni. Mesta fækkun báta var á A-svæðinu. Jöfnuður daga varð á milli svæða. Þetta var kannski það helsta sem stóð upp ú.

Ég tek undir með hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur þegar hún talar um mikilvægi þess að þessi tilraun verði tekin út. Við lögðum reyndar upp með það í atvinnuveganefnd í fyrra að það yrði gert en sú skýrsla hefur ekki komið út þannig að það er mjög mikilvægt að sú vinna fari strax í gang eftir þetta tímabil, ef þetta verður samþykkt, og kerfið tekið út.

Það er til skýrsla sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði um þróun strandveiða á tímabilinu 2009–2017 og framgang veiðanna fyrir árið 2017. Þessi skýrsla er mjög athyglisverð og gaman að lesa hana og margt sem kemur fram í henni. Það er tekið á ýmsum þáttum, bæði hvernig þetta hefur gengið og hver uppruninn var. Þar kemur m.a. fram að hlutur kvenna hefur aukist, það eru fleiri konur núna á strandveiðum en áður þó að þær séu ekki margar. Þess vegna er mjög mikilvægt að taka það fram, finnst mér.

En af því að við ætlum að halda þessum sömu svæðum, þó að þetta sé einn pottur yfir heildina og við séum að breyta kerfinu örlítið hér, þessi tvö ár, 2018 og svo aftur núna í sumar, þá skiptir gríðarlega miklu máli með framhaldið að við tökum stöðuna. Kannski verða einhverjar aðrar ytri aðstæður núna sem þarf að taka tillit til. En vissulega er þetta alltaf áhætta, hvort kerfið geri sig á komandi sumri. Ytri aðstæður er lítt hægt að eiga við, við getum ekki fest þær í lög; gæftir, veðurfar og fiskigengd. Það væri gott að geta stýrt þessu en það er bara ekki í boði.

Reyndin í fyrra var sú að fiskverð fór upp hjá strandveiðibátunum og það var kannski vegna þess að þeir höfðu val um þessa 12 daga innan mánaðarins og gátu stýrt því svolítið hvenær þeir fóru út. Aðallega var það veðrið sem stýrði því en þeir gátu líka miðað svolítið við þá daga sem þeir vissu að þeir fengju betra verð fyrir aflann þegar í land var komið og gátu haft betur upp úr hverju tonni en áður var, þegar kapphlaupið var að ná bara þessum tíma, hvernig sem viðraði. Það fór kannski niður í allt að fjóra daga, veit ég, á svæði A þar sem voru margir bátar og kappið var mikið að komast af stað og veiða kannski bæði lélegri afla og minni fyrir vikið.

Síðan er náttúrlega misjafnt hvernig fiskurinn er að gefa sig á milli svæða. Ég hef talað við nokkra fyrir vestan og þeir sögðu að fiskurinn hefði verið að gefa sig mjög nálægt landi. Aftur á móti í Húnaflóanum tala þeir um að þeir þurfi að stíma langt til að ná í fisk og eru jafnvel svolítið svartsýnir fyrir komandi sumar þegar loðnan sýnir sig ekki. Ef hún kemur ekki inn á Húnaflóann þá komi fiskurinn ekki þar eins og hefur verið. Áfram verður því áhætta og við getum ekki fest hana niður til að bregðast við henni, nema kannski að taka út tvö tímabil.

En vonandi gengur þetta, ég hef fulla trú á því. Ég var svolítið stressuð í fyrra þegar við vorum búin að koma þessu frá okkur, hvernig myndi ganga. En það varð strax ljóst þegar leið á tímabilið að þetta væri bara mjög gott. Þeir sem hafa gagnrýnt þetta mest hafa jafnvel tekið undir að það væri til þess vinnandi að reyna þetta annað ár.

Það er gott að líta til baka, hvernig hefur til tekist síðasta ár. Í heild voru færri bátar sem fóru á strandveiðar. Það voru nokkrar skýringar á því. Fiskverð var í lágmarki í upphafi, betra atvinnustig almennt í landinu og því mikill hvati að hverfa frá og fara í annað sem gæfi betur af sér. Í heild var um 50 bátum færra í kerfinu. Auðvitað, eins og ég sagði áðan, er ekki vitað þegar lagt er af stað hvort einhverra breytinga sé að vænta, hvort það sé von á fjölgun báta og ef svo væri, á hvaða svæði það yrði. Aðrir þættir eins og fiskverð og fleira eru vissulega óvissuþættir en það hafa líka verið óvissuþættir í þessi tíu ár sem strandveiðar hafa verið stundaðar. Síðustu tíu ár hefur potturinn farið vaxandi. Árið 2009 var 3.400 tonnum landað og allt upp í 9.700 tonn í fyrra, en þá var ekki farið upp í þakið. Veiðin á árinu 2018 var sú sama og á árinu áður, þrátt fyrir að heimildin hafi verið hækkuð. Það má því segja að strandveiðikerfið hafi verið að vaxa og síðan þurfum við að skoða hvernig hægt er að gera betur eða jafna aðstöðu milli landsvæða og báta.

Þess vegna er svo mikilvægt að fá þetta ár líka til að sjá hvernig til tekst. Eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði eru strandveiðarnar vissulega barn Vinstri grænna, en ég held að allir flokkar geti skrifað undir það að við förum svolítið með forræðið núna og vonandi tekst þetta að þessu sinni og við séum þá tilbúin að taka málið upp ef út af bregður, ef þetta gefst illa, og sníða af því vankanta þegar að því kemur.