149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Honum er alltaf vel varið, tímanum í fundarsal Alþingis þegar hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson talar. Það er fróðlegt að hlusta á hann og þá vinkla sem hann fer inn á, þó að það sé kannski ekki nákvæmlega tengt efni frumvarpsins sem við ræðum hér. En jú, auðvitað skiptir það töluverðu máli. Matvælastefna framtíðarinnar er byggð á vistspori.

Við erum að tala um nákvæmlega þetta í garðyrkjunni, í lambakjötinu og því sem við erum að gera hérna innan lands. Ég held að við þurfum almennt að vera meðvituð um hvað það skiptir miklu máli. Við erum öll á þeirri leið. Það er líka ánægjulegt að segja frá því, þó að ég ætli ekki að lengja þennan fund mikið, að ég held að við séum svolítið sammála um þetta mál og að við séum á góðri leið.

Samkvæmt upplýsingum sem ég sá, og einnig hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og fleiri hér í salnum þegar við vorum í Noregi á ráðstefnu þar sem Íslendingar voru fremstir í flokki, að veiðar íslenskra fiskiskipa eru alltaf að verða vistvænni. Í dag eyðum við 45% minni olíu á hvert veitt tonn af fiski. Þannig að við erum að gera fína hluti. Ég tek undir það að strandveiðar og krókaveiðar eru innlegg í þá umræðu, eins og línuveiðar almennt. Þess vegna er mjög skemmtilegt að eiga við þetta mál.

Mér finnst líka ánægjulegt, svo ég taki líka þann vinkil á þessa stuttu ræðu mína, að það sé atvinnuveganefnd sem flytji þetta mál, nú í annað skiptið.

Mér finnst gott fyrir okkur þingmenn nefndarinnar að þjappa okkur saman og vinna málið í sameiningu, að ná um það samstöðu og koma með það í þingið og sýna fólki að við vinnum málið mjög vel saman, eins og við gerum reyndar oftast. Þetta mál, sem leitt er af formanni nefndarinnar, er eitt af þeim góðu málum. Hér er líka verið að taka skref fram á við, en okkur var ekki spáð góðu gengi fyrir ári síðan varðandi þessar breytingar. Auðvitað hafði ég sjálfur ákveðnar efasemdir um hluta af því, en ég er bara mjög sáttur við hvernig til tókst á síðasta ári. Fram kom í tölu formannsins og andsvörum hans áðan að við ætlum að halda áfram að þróa þetta frumvarp og þróa þessar veiðar, bæta úr og koma til móts við óskir sjómanna. Þær eru ýmsar, eins og hér hefur verið minnst á, svo sem tímasetning veiða á svæðunum og ýmislegt annað sem við ætlum að spá í í framtíðinni.

Við náðum ekki alveg að klára kvótann á síðasta ári. Við ætlum að samt að bæta í núna og munum að halda áfram að bæta í ufsann sem tekinn verður út úr þorskígildiskröfunni í hverri veiðiferð. Það finnst mér mjög gott mál. Við erum þakklát ráðherranum fyrir að koma til móts við okkur og sjómennina í því efni. Ég held að það séu líka orð í tíma töluð. Ufsinn hefur ekki veiðst vel og það fellur mikið af honum niður á hverju ári. Þannig að ég held að þetta sé bara hið besta mál.

Ég fagna þessu frumvarpi og þeirri samstöðu sem er um það. Við ætlum okkur að klára þetta mál í tíma.

Ég tek undir það sem fram kom áðan hjá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, að við þurfum að gefa okkur betri tíma á næsta ári til að fara í gegnum þetta eins og við ætluðum að gera. Skoða þær breytingar sem við sjáum að við getum gert til að koma betur til móts við sjómenn. Þetta frumvarp byggir töluvert á öryggismálum sjómanna. Það eru þá 12 dagar til að velja um. Mér finnst að við þurfum að halda áfram að skoða val á dögum, það kom líka fram áðan, og alla vega ekki útiloka neitt í því efni. Ég veit að sumt af því er kannski ekki gerlegt, eins og varðandi laugardaga og sunnudaga yfir sumartímann. En við skulum ekki útiloka neitt halda áfram að skoða það.

Ég vil þakka félögum mínum í nefndinni fyrir gott samstarf um þetta mál og flest önnur. Mér finnst nefndin vera samstiga í gríðarlega mörgum málum og vinna vel.