149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:11]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp atvinnuveganefndar um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, þ.e. hvað varðar strandveiðar.

Eins og fram hefur komið stendur nefndin sameiginlega að framlagningu þessa frumvarps en þar sem ekki er hefð fyrir því að gera fyrirvara í greinargerð frumvarpa taldi ég rétt að koma hér upp og gera aðeins grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég hefði viljað setja ef kostur hefði verið á. Þar sem þær athugasemdir voru í sjálfu sér ekki efnislegar og ég er í grunninn, á meðan við náum ekki fram frekari breytingum á kvótakerfinu og öllu því, hlynnt strandveiðunum og styð þess vegna málið og gerði það einnig í fyrra þegar nefndin lagði til sambærilegar tímabundnar breytingar á löggjöfinni.

Stærsta breytingin nú eins og þá felst í því að hver bátur geti stundað strandveiðar í 12 daga í hverjum mánuði, svo lengi sem ráðstöfuðum heildarafla er ekki náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setti um strandveiðar árið 2018. Ég held að það sé vægt til orða tekið þegar ég segi að ekki hafi verið mikil sátt um breytingarnar í fyrra, það er bara mjög vægt til orða tekið, held ég. En sem betur fer bendir allt til þess að reynsla síðasta sumars hafi verið mjög góð þegar upp er staðið og þess vegna ástæða til að festa þær í sessi.

Mig langar þó að taka undir með hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur og Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um að það væri líklega gagnlegt fyrir okkur að klára þá vinnu að meta árangurinn af breytingunum í fyrra. Eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, kom inn á í máli sínu áðan gefst væntanlega tími til þess í vinnunni núna innan atvinnuveganefndar, sem er bara hið besta mál.

Eins og ég sagði áðan bendir allt til þess, alla vega, að reynslan hafi verið góð síðasta sumar. Það sem menn óttuðust náttúrlega mest, að potturinn myndi klárast, gerðist ekki. Eins og fram hefur komið á að stækka pottinn enn meira þannig að enn meiri líkur eru á að hann dugi til, eins og ég sagði áðan, þótt hann hafi nú gert það síðasta sumar.

Frú forseti. Það sem ég hef hins vegar verið að velta fyrir mér varðandi þetta frumvarp er í raun hvernig það er komið hingað fram. Nú hefur legið fyrir í u.þ.b. ár að gagnlegt væri að breyta löggjöfinni. Ég átta mig þess vegna ekki alveg á ástæðu þess að við erum að ræða þetta svona seint.

Ég geri einnig athugasemdir við að málið hafi ekki farið í þann farveg sem er kannski eðlilegastur, þ.e. að frumvarpið kæmi frá sjávarútvegsráðherra. Auðvitað er gott og jafnvel mikilvægt að þingið eigi frumkvæði að lagabreytingum en þegar um er að ræða breytingu á löggjöf einnar af okkar grundvallaratvinnugreinum hefði ég talið æskilegt að frumvarpið færi sína hefðbundnu leið í samráði við önnur ráðuneyti, í gegnum ríkisstjórn og þingflokka stjórnarinnar, til að fá þá rýni og umfjöllun sem þar fer fram.

Frú forseti. Málið gengur nú á ný til atvinnuveganefndar eftir að þessari umræðu lýkur hér á eftir. Nefndin mun væntanlega byrja á því að óska eftir umsögnum þar til bærra aðila um málið. Ég vil að lokum hvetja alla sem telja sig eiga hagsmuna að gæta í þessu máli til að senda inn umsagnir til að aðstoða nefndina í þeirri vinnu sem er fram undan við að rýna frumvarpið áfram.