149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu. Ég myndi ekki endilega segja mikið vill meira heldur hugsjónafólk vill vinna áfram við að bæta mál sem það brennur fyrir. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það í ræðu sinni hvernig sumarið í fyrra hafi gengið. Ég er ekki alveg viss um að við getum dregið jafn víðtækar ályktanir og mér fannst hv. þingmaður gera um hvernig næsta sumar verði. Það eru ýmsar breytur í því. Veður er vissulega mjög stór þáttur af því en ég bind í það minnsta sjálfur miklar vonir við að þær viðbætur sem við leggjum hér til — og sú staðreynd að vissulega, þrátt fyrir veður, náðist ekki allur aflinn í fyrra — geri að verkum að áhyggjur hv. þingmanns af því að þetta klárist á einu svæði áður en til annarra komi, þ.e. fjarlægasta svæðisins verði vonandi óþarfar.

Hér er náttúrlega líka gerð sú breyting að strandveiðimenn hafa frest til 1. maí til að færa sig á milli svæða, ef þeir vilja. Þeir geta vissulega fært sig á milli bæjarfélaga og innan þess svæðis en líka einnig sett sig á ákveðið svæði.

Mig langaði einmitt að spyrja hv. þingmann út í það að aflinn í fyrra var 9.380 tonn, eða 820 undir heimildum, og nú er heilum 1.000 tonnum bætt við. En svo, eins og hv. formaður atvinnuveganefndar fór hér yfir, er heimild til að bæta í, ef það er innan annarra kerfa, lausar heimildir. Ég spyr hvort hún telji ekki að líkur séu á því að þetta muni duga.