149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Mig langar að koma inn í umræðuna til að reifa nokkrar hugmyndir og fjalla aðeins um málið. Þetta mál er þess eðlis mál að miklar deilur hafa staðið um það, um strandveiðakerfið, í langan tíma. Breytingarnar sem gerðar voru í fyrra voru ekki alveg í fullkominni sátt en virðast þær hafa skilað ágætisniðurstöðu þrátt fyrir það.

Ástæðurnar fyrir því að niðurstaðan var jafn góð og raun ber vitni var að hluta til vegna þess að veðrið í fyrra var með því versta sem við höfum séð áratugum saman, þetta var sumarið sem aldrei kom. Því er ástæða til að velta fyrir sér nálgun okkar á strandveiðikerfið og þróun þess — þetta hefur verið kallað tilraun mjög lengi — hvort hún þurfi ekki einmitt að litast af því hvaða skref er raunhæft og pólitískt mögulegt að taka hverju sinni. Þetta frumvarp er ágætisskref í þá átt, þetta er jákvætt frumvarp. En við þurfum líka alltaf að taka tillit til þess hvaða sjónarmið við höfum um hvert þetta kerfi á að fara til lengri tíma litið. Mér finnst gæta ákveðinnar uppgjafar í frumvarpinu, sem kemur frá atvinnuveganefnd, að ekki skuli reynt að stíga töluvert lengra, sérstaklega í ljósi þess sem hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé áðan, að hæstv. sjávarútvegsráðherrann var ekki alltaf og er jafnvel ekki enn þá hlynntur því kerfi.

Þá spyr maður sig: Er verið að gefa upp á bátinn hugsjónir án þess að þörf sé á því af því að það er einhver pólitískur ómöguleiki gagnvart sjávarútvegsráðherra í þessu máli? Ég veit það ekki. Ég geri ekki neinum upp neina sérstaka afstöðu með það en spyr sig samt hvort hægt hefði verið að ganga aðeins lengra. Ég ætla svo sem ekki að leggja til neinar stórkostlegar breytingar á frumvarpinu og geri ráð fyrir því að atvinnuveganefnd vinni þetta mál jafn vel og vera ber. Ég gagnrýni samt að það er eingöngu einn pottur og þá í ljósi þess að það var líklega veðrið sem varð til þess að það voru ekki nema 800 kíló eða þar um bil ónotuð í fyrra. Aukning um 1. 000 tonn — ég segi tonn frekar en kíló — er frábært skref fram á við. Ef veðrið verður frábært úti um allt land í sumar, sem ég vona að verði svo að allir geti notið þess, eru líkur á því að fólk fyrir austan og sunnan muni eiga erfiðara með að veiða hreinlega vegna þess að pottar tæmast. En það kemur í ljós, við sjáum til.

Hitt sem ég vildi nefna í framhaldi af góðri umræðu áðan um loftslagsmálin er að það er vel þekkt staðreynd að smábátar eyða töluvert minni olíu á veitt tonn heldur en t.d. togarar eða aðrir stærri bátar. Ég er ekki með nákvæma tölu en þetta er spurning um 100 lítra á tonn af veiddum fiski versus lítra af olíu á tonn af veiddum fiski. Það veldur því að maður fer að hugsa: Væri ekki jákvætt fyrir náttúruna að við horfðum til strandveiðikerfisins, til aukningar og uppbyggingar? Það hefur jákvæð áhrif á byggðir, það hefur jákvæð áhrif á umhverfið. Þetta er vannýtt tækifæri.

Svo er hitt að í dag er heildarfjöldi rafmagnsfiskveiðibáta 0 á landinu. Það kemur kannski til með að breytast, það á eftir verða tækniþróun í því. En ég beini því til atvinnuveganefndar að skoða og ræða sín á milli hvort ekki mætti segja að í tilfelli rafmagnssmábáta mætti ekki auka fjölda handfærarúlla upp í sex, sem er ótrúlega hófleg og einföld breyting sem myndi búa til jákvæða hvata til að þessi minnsti og sparneytnasti hluti fiskveiðiflotans yrði enn þá sparneytnari í framtíðinni.

Þetta eru örfáar vangaveltur. Ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar. Ég ítreka að menn eru með margar og mismunandi hugsjónir á þessu þingi. Loftslagsmálin eru mjög ofarlega í hugum margra og er um að gera að nýta okkur það, en mörgum þykir líka mjög vænt um strandveiðikerfið vegna þess að þetta er afskaplega gott kerfi. Við skulum ræða svolítið hvert við viljum fara með það og hvernig við getum þróað það áfram og jafnvel reynt að stíga aðeins stærri skref. Stundum þurfum við að bakka ef það reynist pólitískt ómögulegt að fara alla leið, en við skulum alla vega hafa hugsjónirnar ofarlega í huga.