149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ökutækja tryggingar.

436. mál
[17:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ökutækja tryggingar og einhverjar smávægilegar breytingar á þeim. Ein af breytingunum er, eins og segir orðrétt í frumvarpinu:

„Í þriðja lagi er lögð til rýmkun á fyrningarreglum. Nú fyrnast allar kröfur á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfurnar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Í frumvarpinu er lagt til að fjögurra ára fyrningarfrestur eigi ekki við um bætur vegna líkamstjóns heldur að þær kröfur fyrnist á tíu árum.“

Í frumvarpinu og umsögnum eru margir taldir upp, en enginn af þeim sem gæta eiga hagsmuna tjónþola eða almennings í þessu efni, t.d. eins og Neytendasamtökin og Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Tortryggni mín gagnvart þessu frumvarpi er líka sú að þrátt fyrir þessa breytingu á fyrningarreglum segir:

„Ekki er gert ráð fyrir teljandi mælanlegum áhrifum á greiðsluskyldu vátryggingafélaga vegna þessarar tillögu.“

Sem sagt, ekki er reiknað með að þessar breytingar skili tjónþola nokkrum sköpuðum hlut, heldur ég óttast eins og vanalega að þessar breytingar muni skila tryggingafélögum betri afkomu.

Við umferðartjón ber tryggingafélögum skylda til að leggja peninga í bótasjóð, svokallaða vátryggingaskuld, á kennitölu viðkomandi tjónþola. Og síðan hefst stríðið um að fá bætur. Því miður er staðreyndin sú að það skiptir engu máli hvort viðkomandi er eintryggður sem ökumaður eða tvítryggður í 100% rétti. Það virðist alltaf vera tryggingafélagið sem hefur völdin. Því er það svolítið fyndið þegar maður les að tryggingafélögin hafi sama rétt og sökunautur sjálfur á því að koma að vörnum í skaðabótamáli. Að réttur tjónþola og tryggingafélagsins sé sá sami, stenst ekki. Það er aldrei nokkurn tímann sambærilegt. Tryggingafélagið með alla sína fjármuni og lögfræðinga hefur alltaf yfirburði, sérstaklega þegar ríkið sér til þess að einstaklingar fái ekki gjafsókn til að berjast við tryggingafélögin. Það virðist vera sama hvað reynt er, það er svo til vonlaust að fá gjafsókn í dag. Það fara kannski tvö, þrjú, fjögur ár í að berjast við að ná heilsu eftir að hafa farið illa út úr umferðarslysum, og án gjafsóknar er fjárhagurinn farinn hjá flestu venjulegu fólki. Það segir okkur að svona skaðabótamál og bótaréttur eru eiginlega ekki fyrir venjulegt fólk, heldur bara fyrir þá sem hafa efni á því að leggja út fyrir kostnaði til að berjast við tryggingafélögin.

Síðan er annað skrýtið í þessu, þ.e. aðgangur tryggingafélaganna. Þau virðast hafa ótakmarkaðan aðgang að sjúkraupplýsingum og virðast vera með lækna á sínum vegum sem geta gengið að sjúkraupplýsingum án þess að þurfa að biðja um það skriflega, án þess að kvitta fyrir þeim, og nota þær síðan í þeim tilgangi að klekkja á tjónþola. Síðan er alveg með ólíkindum að maður geti lesið í gögnum frá tryggingafélagi þar sem hreinlega er verið að segja ranga hluti, t.d. eins og að færa viðkomandi úr eigin bíl yfir í annan bíl til að búa til lágorkuáverka. Þegar tryggingafélögunum er bent á að það fái ekki staðist segja þau: Það skiptir bara engu máli hvort þetta voru lágorkuáverkar eða háorkuáverkar. Það sem tryggingafélagið segir er það eina sem skiptir máli.

Hér var einnig rætt um notkun bílbelta. Þar var eiginlega verið að setja slík brot í sama flokk og brot þeirra sem aka ölvaðir eða undir áhrifum eiturlyfja og að gæta eigi meðalhófs þar. Tryggingafélögin fara ekki eftir meðalhófi. Tryggingafélögin fara eftir því hvernig þau geta komist hjá því að borga. Og þau munu gera allt sem þau geta til þess að sjá til þess að þau borgi sem minnst og helst ekki neitt.

Við gleymum oft í umræðu um tryggingamál og skaðabótamál í ökumannstryggingum, að kostnaðurinn er mikill sem viðkomandi þarf að standa straum af vegna sjúkraþjálfunar, læknis og fleira. Yfirleitt situr fólk uppi með þann kostnað óbættan þó að það eigi fullan rétt á að fá hann greiddan. Sagt er að fyrning á líkamstjóni verði ekki fyrr en eftir tíu ár, en það breytir engu þegar maður lendir í því að fyrningarreglurnar eru bara geðþóttaákvörðun ákveðinna lækna, sem oftast eru valdir af tryggingafélögunum. Fólki er stillt upp við vegg: Annaðhvort tekurðu smánarbæturnar eða færð bara ekki neitt.

Og það er líka alveg með ólíkindum að kostnaður, t.d. vegna sjúkrahúslegu út af umferðarslysum, sem er gífurlegur, lendir á samfélaginu, ekki tryggingafélaginu. Samt bólgna út bótasjóðirnir og vátryggingaskuldir tryggingafélaganna, það skiptir milljörðum. Við vitum um einn svona sjóð sem hvarf út í hruninu. Hann endaði sem lúxusíbúð einhvers staðar í Kína, kom aftur til baka og endaði sem veð í sundlauginni á Álftanesi. Þessir bótasjóðir eru aldrei gerðir upp. Það er ekkert í lögum á Íslandi sem skyldar tryggingafélögin til að gera bótasjóðina upp. Í Evrópu er þetta gert upp sennilega á fjögurra til tíu ára fresti, eftir því sem mér skilst. Þetta er aðalgróðalind tryggingafélaganna, þessir bótasjóðir, eða það sem þeir ávaxta og græða á. Því meira sem tryggingafélögin geta bætt inn í bótasjóðina, því meira græða þau. Það veldur því að þau hugsa með sér: Ókei, fáum allt inn í bótasjóðinn, greiðum ekkert út.

Ég er búinn að vera að berjast við tryggingafélögin undanfarna áratugi og hef hitt hundruð, ef ekki næstum þúsund einstaklinga sem lent hafa í umferðarslysum, og hef kynnt mér þeirra mál. Samt hef ég ekki hitt einn einasta sem hefur verið ánægður með þær bætur sem hann hefur fengið.

Þess vegna segi ég að við verðum og við eigum að sjá til þess, ef við erum á annað borð með skaðabótalög og með bætur þannig að fólk sé tryggt og það borgi sínar tryggingar og eigi rétt á bótum, og tryggja einhvern veginn að fólk fái greitt út úr tryggingum. Til þess verðum við líka og ríkisstjórnin og allir að sjá til þess að þeir einstaklingar sem geta ekki barist við tryggingafélögin vegna fjárskorts fái gjafsókn. Það þarf að tryggja það. Ég segi: Það þarf beinlínis að vera sett í lög. Hægt er að nýta bótasjóði eða hluta af þeim í að sjá til þess að það sé skýrt í lögum að viðkomandi tjónþoli geti fengið gjafsókn, hann geti beðið um dómkvadda matsmenn, hann geti beðið um réttláta meðferð. Meðan við höfum það ekki í þessum málum erum við alltaf að brjóta á lítilmagnanum, vegna þess að við vitum það, og það er bara staðreynd, að venjulegt fólk getur ekki barist við tryggingafélög sem eru með lögfræðinga í kippum á sínum snærum og geta borgað hvað sem er.

Það er alveg ömurlegt til þess að vita að maður skuli geta lent í því að hægt sé að taka sjúkraskrár manns og falsa þær. Maður kærir það. Maður kærir það til Persónuverndar. Maður vinnur málið, vegna þess að það kemur skýrt fram í lögum að það þarf undirskrift mína til að fá mínar persónulegu upplýsingar úr sjúkraskrám. Það var ekki gert. Til að ég gæti fengið sömu upplýsingar og trúnaðarlæknir tryggingafélags fékk þurfti ég að sýna skilríki. Ég þurfti að biðja skriflega um að fá afrit af því sem hann var að vitna í. Ég þurfti að bíða í viku eftir því. Ég þurfti að koma og sýna aftur skilríki og kvitta fyrir. Þetta gat viðkomandi læknir gert og rölt úr skrifstofu sinni í Orkuhúsinu yfir á bæklunardeild Landspítalans, prentað þetta út, notað það án þess að biðja nokkurn, hvorki kóng né prest um það. Persónuvernd sagði það vera ólöglegt. Hvað gerði viðkomandi? Jú, hann kærði mig og Persónuvernd til héraðsdóms. Hvað sagði héraðsdómur? Jú, þetta er ólöglegt. Málið fór síðan til Hæstaréttar. Þar endaði málið á þeirri undarlegu firru að það liggur við að Hæstiréttur hafi sagt: Þetta er í lagi í þetta sinn.

Einhvern veginn tókst Hæstarétti að segja það, af því að ég hafði skrifað upp á umboð fyrir lögmann minn til að gæta hagsmuna minna, og hafi ég afsalað mér rétti um verndun persónuupplýsinga í sjúkraskrám. Á meðan þessi dómur Hæstaréttar er í gildi þá segi ég bara: Guð hjálpi okkur. Það er líka annað í þessum málum sem er alvarlegt varðandi sjúkraskrár, þ.e. að þær eru galopnar í dómsmálum. Þar eru mjög viðkvæmar persónuupplýsingar gjörsamlega opnar fyrir öllum, með nafni og kennitölu, heimilisfangi. Það hlýtur að segja okkur að það er meira en lítið að í samfélagi okkar ef við ætlum að hafa hlutina svona.

Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þetta frumvarp, miðað við það sem verið er að gera þarna, sé eins og annað, þ.e. verið er að gera eitthvað fyrir tryggingafélögin og þau munu geta nýtt sér þetta á einhvern hátt og þannig komist hjá því að borga það sem þau eiga að borga löglega, miðað við það sem ætti að vera. En því miður virðist alltaf einhvern veginn vera hægt að komast fram hjá því.

Í b. lið í kafla 3.2 í greinargerð segir:

„Lækka má eða fella niður bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Einnig má lækka eða fella niður bætur vegna tjóns á munum ef tjónþoli var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi.“

Auðvitað munu tryggingafélögin nýta sér það. Þau munu gera allt sem þau geta til að benda á það að þetta sé bara af einhverju gáleysi hjá viðkomandi.

Ég hef séð hvernig tryggingafélögin ganga fram, sönnunarbyrðin snýst oft við í þessum tryggingamálum. Í staðinn fyrir að þau eigi að sanna að viðkomandi hafi gert eitthvað af sér, þarf maður sjálfur að sanna sakleysi sitt. Ég vona að einhvern tímann verði það þannig að við búum til lög og förum í endurskoðun á lögum um ökutækja tryggingar, á skaðabótalögum, og bætum þau þannig að almenningur, venjulegt fólk, sem borgar sínar tryggingar, ekur úti í umferðinni, sé bæði tryggt sem ökumenn og eins ef það verður fyrir tjóni í 100% rétti. Það virðist ekki skipta neinu máli.

Í öllum þeim þremur árekstrum sem ég hef lent í var ég 100% rétti. Það var ekið á bifreiðina mína. En hef ég fengið bætur? Nei. Er ég í skuld? Hef ég tapað á þessu? Já. Alveg stórlega. Það er furðulegast í þessu öllu að það er alveg sama hvað maður gerir, meira að segja geta málin geta fyrnst, þau byrja að fyrnast á sama tíma og maður er í læknismeðferð. Hvernig í ósköpunum getur eitthvað byrjar að fyrnast þegar viðkomandi er ekki einu sinni gróinn sára sinna? En það er hægt. Það er gert. Svona vinna tryggingafélögin.

Það er alveg ömurlegt til þess að vita að við skulum vera með þannig kerfi að þeir sem eru veikir, þeir sem eru slasaðir, sem geta eiginlega ekki varið sig, geta ekki fengið sér lögfræðing af því að þeir fá ekki gjafsókn frá ríkinu. Þeir geta ekki fengið bætur af því að þeir fá ekki gjafsókn frá ríkinu. Þeir geta ekki barist við tryggingafélögin af því að þeir fá ekki gjafsókn frá ríkinu. Þeir eru búnir að missa allt. Fjárhagsleg geta er farin og ríkið segir nei, tryggingafélagið brosir út í annað, bótasjóðirnir bólgna út. Og hvert skyldu þeir fara næst? Til Tortóla? Við hljótum að hugsa um það, vegna þess að ég man að Pétur Blöndal heitinn talaði einhvern tímann um bótasjóðina og vátryggingaskuldina sem fé án hirðis.

Það hlýtur líka að teljast stórfurðulegt að ég lagði fram fyrirspurn um það hvað væri á kennitölu minni í vátryggingaskuld eða í bótasjóði VÍS, hvort það væru 100, 200, 300 milljónir. Það er á minni kennitölu, en ég fæ ekki þær upplýsingar. Á sama tíma gat læknir ætt inn í sjúkraskrá mína án þess að nokkur stoppaði hann af. Það sýnir að við erum svo langt frá því að hafa þessi mál í lagi.