149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

fjármálaáætlun og staða flugmála.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég tel reyndar ekki endilega skynsamlegt að hæstv. fjármálaráðherra svari þeirri spurningu á þessum tímapunkti hvað ríkisstjórnin ætli að gera, enda liggur ekki fyrir hvernig málið fer. Það gæti haft óæskileg áhrif ef hæstv. fjármálaráðherra færi að útlista nákvæmlega hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar yrðu við tilteknar aðstæður.

Þess vegna er ég ekki að spyrja út í áætlunina. Ég er ekki að spyrja hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Ég er einfaldlega spyrja: Er ríkisstjórnin með plan eða plön sem eru löguð að ólíkum sviðsmyndum? Veit ríkisstjórnin hvernig hún ætlar að bregðast við í dag eða á morgun eða næstu daga, eftir því hvernig hlutirnir þróast? Veit ríkisstjórnin hvernig hún ætlar að grípa inn í, eftir atvikum, til að koma í veg fyrir eða lágmarka það tjón sem af þessu kann að verða?

Það eru dæmi frá útlöndum um að stjórnvöld hafi gripið inn í til að halda rekstri gangandi. Ég er ekki að fara fram á að hæstv. fjármálaráðherra svari því hvort hann hafi slíkt í huga. Ég er einfaldlega að spyrja: Er ríkisstjórnin með plan?