149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

Þriðji orkupakkinn.

[15:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma með fyrirspurn til hæstv. ráðherra um þriðja orkupakkann. Fyrir skemmstu, fyrir lok mánaðarins, ákvað ríkisstjórnin að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu sem kveður á um innleiðingu á hinum svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Það er morgunljóst að á því máli eru afskaplega skiptar skoðanir. Í rauninni má segja að sitt sýnist hverjum. Þess vegna brennur á mér núna hvort þetta sé ekki akkúrat þannig vaxið mál að það sé í rauninni þjóðarinnar að taka ákvörðun um hvort við höfum möguleika á því til framtíðar á hinu háa Alþingi að leggja sæstreng. Það fer bara eftir því hverjir sitja við stjórnvölinn hverju sinni hvers lags geðþóttaákvörðun verður tekin. Verða það Evrópusinnaðir aðilar sem munu stýra hér eða hverjir verða það? Mun sæstrengurinn verða að veruleika? Verður hann það ekki?

Þetta eru stórar spurningar. Mér finnst þær það stórar að aðalspurning mín til ráðherra er: Er ekki tímabært, í ljósi þess að við viljum vera með lýðræðislegt samfélag þar sem við erum með allt uppi á borðum og viljum gjarnan hafa meira af opnu lýðræði, að þjóðin komi meira að svona risaákvörðunartökum sem varða hana hreinlega til framtíðar, samanber EES-samninginn á sínum tíma sem þjóðin hafði akkúrat ekkert um að segja.

Spurningin er, hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til að vísa þriðja orkupakkanum til þjóðarinnar og gefa henni kost á að svara hvort hún vill hann eða ekki?