149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

þriðji orkupakkinn.

[15:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í raun og veru var þetta hálfgerð sögustund og svo ruglingslegt að ég veit ekki lengur hvort ég er að koma eða fara, nema eitt er alveg víst að það er ekki þjóðarinnar að fá að segja síðasta orðið um þetta, þegar verið talað um tæknilegar útfærslur og annað slíkt, þegar verið er að tala um EES-samninginn í þessu sambandi og að þetta sé allt annars eðlis. Ég tel ekki svo vera. Ég tel þetta vera mjög mikilvægt hagsmunamál sem mun varða þjóðina til framtíðar. Mér finnst eðlilegt að þjóðin fái einhvern tíma að koma að því sem varðar hana um alla eilífð.

Telur hæstv. ráðherra ekki að það sé framsal á dómsvaldi þegar ACER kemur til með að fjalla um öll álitaefni sem hugsanlega kunna að rísa vegna aðkomu okkar að innri markaði raforku í Evrópu?