149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

keðjuábyrgð.

669. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Við höldum okkur á svipuðum slóðum enda um áleitið málefni að ræða. Það varðar keðjuábyrgð. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér með okkur en skýrsla samstarfshóps á hans vegum, um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði, kom út í janúar sl. og fjallaði nokkuð um keðjuábyrgð og fleira sem lýtur að brotastarfsemi á vinnumarkaði. Þetta er ágæt skýrsla og greinargóð. Stjórnvöldum má vera ljóst að alvarlegar brotalamir hafa verið á þessum þáttum í mörg ár og hægt og illa hefur gengið að stoppa upp í göt sem vitað er um og bitna á þátttakendum á vinnumarkaði, launþegum og viðskiptalífinu öllu.

Um mitt síðasta ár samþykkti Alþingi mikilvægar úrbætur á lögum um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda frá því á árinu 2007. Lögin ná nú til starfsmanna erlendra þjónustufyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi þótt fyrirtækin séu ekki með starfsstöð hér eða hafi bara gert samninga við innlend notendafyrirtæki. Keðjuábyrgðin er enn þá mjög takmörkuð eftir starfsgreinum og virkar þannig að fyrirtæki sem hefur starfsmenn í vinnu á vegum starfsmannaleigu er skuldbundið til að ganga inn í skyldur starfsmannaleigunnar. Ef fyrir liggur að starfsmenn hafi ekki fengið greidd þau laun sem þeim ber er hægt að beina kröfunum að fyrirtækinu sem leigði þá. Mál rúmensku verkamannanna, sem rataði í fjölmiðla, og áður hefur verið getið um, var tilvik af þessu tagi þar sem grunur lék á að um nauðungarvinnu hjá starfsmannaleigu á höfuðborgarsvæðinu hafi verið að ræða, þar hafi verið haft rangt við og reynt gæti á keðjuábyrgð.

Alþýðusamband Íslands, herra forseti, hefur lagt á það mikla áherslu að keðjuábyrgð verði að almennri reglu á íslenskum vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins hafa hins vegar móast við og talið að frekar ætti að grípa til sértækra aðgerða þar sem vandamálin væru til staðar á vinnumarkaðnum. Almenn keðjuábyrgð væri of dýr og of víðtæk aðgerð. Nú er rætt um að skylda til keðjuábyrgðar verði sett í lög um opinber innkaup.

Herra forseti. Við upplifum endurtekin tilvik vítt og breitt í atvinnulífinu, landinu og þjóðinni til mikils vansa. Ég spyr því hæstv. ráðherra þriggja spurninga:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum með það að markmiði að styrkja enn frekar keðjuábyrgð fyrirtækja og að ábyrgðin nái til allra fyrirtækja sem hafa erlenda starfsmenn í þjónustu sinni en ekki eingöngu til þeirra fyrirtækja sem starfa að mannvirkjagerð?

Telur ráðherra að keðjuábyrgð eigi að vera lagaskylda á öllum sviðum atvinnustarfsemi?

Telur ráðherra ástæðu til að herða ákvæði laga um atvinnustarfsemi í því skyni að hindra að brotið sé á einstaklingum og fyrirtækjum?