149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

keðjuábyrgð.

669. mál
[16:37]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í lögum sem samþykkt voru síðasta sumar var samþykkt með hvaða hætti keðjuábyrgð væri. Í frumvarpinu sem þar varð að lögum kom fram að taka ætti þessa tvo þætti inn til að byrja með, eins og hv. þingmaður nefndi, og síðan skyldum við hafa mjög reglulegt eftirlit með því hvernig því yndi fram. Alþingi eða stjórnvöld skyldu svo grípa inn í og koma með breytingartillögur og útvíkka þetta yfir allan vinnumarkaðinn. Það skyldi þá gert í framhaldinu þegar reynsla væri komin á keðjuábyrgð gagnvart þessum þáttum atvinnulífsins. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur enn ekki reynt á keðjuábyrgð í framkvæmd. Þó ber að hafa í huga að um einkaréttarlegt úrræði er að ræða án aðkomu Vinnumálastofnunar.

Þegar spurt er að því hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir breytingum á lögum með það að markmiði að styrkja enn frekar keðjuábyrgð fyrirtækja er svarið: Já, almennt er ráðherra fylgjandi því að styrkja enn frekar keðjuábyrgð fyrirtækja. Við samþykktum lög hér á þingi eftir víðtækt samráð. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að um þetta eru skiptar skoðanir milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins en niðurstaðan hér á þinginu varð sú að framfylgja þeirri tillögu sem þó hafði náðst sátt um og líka eftir meðferð í hv. velferðarnefnd. Ég held að í ljósi þess eigum við að láta reyna á keðjuábyrgðina. Við erum að vinna út frá því og vöktum þetta, höfum eftirlit með þessu, og erum tilbúin til að grípa inn í ef menn telja að það þurfi að útvíkka það. Stefna ráðuneytisins er að vinna eftir því frumvarpi sem samþykkt var á grunninum sem því var búinn.

Það er hins vegar alveg ljóst að þetta er einn af þeim þáttum sem fjallað var um í umræddri skýrslu sem kynnt var í janúar. Þar var rætt um keðjuábyrgð og m.a. með hvaða hætti þyrfti að skilgreina hana betur og styrkja og menn voru sammála um ákveðin atriði þar. Þar kom líka fram, svo því sé haldið til haga, að þrátt fyrir að allir þeir aðilar sem kæmu að vinnu skýrslunnar væru sammála um allar stærstu meginlínurnar, stærstu megintillögurnar, þá var tekið á því í þessari vinnu að Alþýðusambandið vildi að keðjuábyrgð yrði sett yfir allan vinnumarkaðinn.

Varðandi þá hugmynd komu þau mótrök fram af hálfu Samtaka atvinnulífsins að frekar ætti að taka til sértækra aðgerða þar sem vandamálin væru til staðar á vinnumarkaðnum. Almenn keðjuábyrgð, sem myndi kalla á kostnaðarsamt eftirlit, væri of víðtæk aðgerð. Þetta eru ekkert ný sjónarmið. Þau eru enn þarna. Þarna eru enn ólíkar skoðanir á þessu viðfangsefni.

Við erum að fylgjast með þessu. Við erum að vakta þetta. Frumvarp er ekki í undirbúningi en við fylgjumst grannt með þessu og erum tilbúin til að bregðast við og leggja fram frumvarp á ákveðnum tímapunkti ef menn meta það svo. Hv. þingmaður spyr hvort ástæða sé til að herða ákvæði laga um atvinnustarfsemi í því skyni að hindra brot hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Það eru einmitt tillögur í þessum samstarfshópi sem lúta að því að koma inn með ákveðin viðurlög og ég hef sagt að við séum að fylgja eftir þeim tillögum. Það er gríðarlega mikilvægt að því sé fylgt fast eftir og við munum kynna aðgerðir hvað það snertir eins fljótt og auðið er.

Hins vegar er mikilvægt að bæta því við, af því að við vorum í þessari umræðu hér áðan, að ég held að það sé samt mikilvægt að þegar við erum að vinna þessar tillögur áfram — víðtæk samstaða náðist um meginlínurnar í þeim — reynum við að halda þeirri samstöðu áfram eins og kostur er um stóru útlínurnar varðandi viðurlög og annað. Það kostar auðvitað tíma að gera það og ég veit að við viljum koma þessu sem fyrst til framkvæmda. Ég held að það sé mikill styrkur í því að halda samstöðunni vegna þess að við viljum tryggja þann samstarfsvettvang sem þarna er. Ég vona að þetta hafi að einhverju leyti svarað fyrirspurnum hv. þingmanns. Ef ekki kem ég í seinni umferð.