149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

keðjuábyrgð.

669. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég skildi svör hans þannig að hann væri á þessu stigi ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir því að styrkja löggjöfina enn frekar með það að markmiði að keðjuábyrgð verði lagaskylda á öllum sviðum atvinnustarfsemi. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, ef ég hef skynjað þetta á annan hátt en hann meinti.

Það kom fram í umræðunni fyrr í dag að stjórnvöld, lögreglan, ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun, væru þegar farin að hefja samræðu um að formgera samninga eða eitthvert samstarf og viðbrögð við brotastarfsemi, það hefur vantað dálítið upp á það að klára mál sem upp koma. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvenær hann sjái fyrir endann á því starfi og hvenær við sjáum hilla undir það að þessi vinna taki á sig markvisst form.

Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra sjái fyrir sér mögulega útfærslu á því hvernig megi í auknum mæli fyrirbyggja alvarleg eða ítrekuð brot gegn starfsmönnum með því að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna. Þurfum við ekki að endurskoða viðurlögin samhliða þeirri vinnu allri saman?