149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

keðjuábyrgð.

669. mál
[16:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Aðdragandinn að því að þetta frumvarp var lagt fram á sínum tíma, varðandi keðjuábyrgðina, var mjög víðtækt samráð allra aðila á vinnumarkaði. Niðurstaðan úr því samráði varð að leggja frumvarpið fram með þessum hætti og um það spannst mikil pólitísk umræða hér í þingsal og ég þykist vita líka í hv. velferðarnefnd.

Niðurstaðan úr öllu því samráði og vinnunni hér í þinginu varð sú að þetta næði eingöngu til ákveðins hluta vinnumarkaðarins til að byrja með, þannig að við höfum verið að vinna með þá niðurstöðu. Við fylgjumst með stöðunni á vinnumarkaði og hvernig ákvæðið um keðjuábyrgð reynist í þeim tilteknu atvinnugreinunum. Síðan er ætlunin að grípa inn í með lagabreytingum ef talin verður þörf á því. Við erum því í raun að vinna algjörlega með þá niðurstöðu sem unnið var með á sínum tíma.

Ég ítreka aftur að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur ekki enn reynt á keðjuábyrgð í framkvæmd, ekki einu sinni í þessum umræddu atvinnugreinum. En komi í ljós að mikilvægt sé að grípa inn í gagnvart fleiri atvinnugreinum áður en við látum reyna á þessar umræddu atvinnugreinar mun ekki standa á ráðherranum eða ráðuneytinu að grípa þar inn í og setja fram nauðsynlegar breytingar.

Hvað varðar tímamörk í vinnu hópsins, þessum samráðsvettvangi varðandi eftirlit á vinnumarkaði sem þegar er kominn af stað, þá fundaði hann í síðustu viku. Nú er verkefnið að hann setji sér ákveðnar starfsreglur og vinnulag, hvernig menn geti í sameiningu komið inn með auknum slagkrafti.

En varðandi tímalínu á öllum þessum umræddu tillögum, af því að það var rætt sem innlegg í kjarasamninga, með hvaða hætti þetta verði innleitt, þá er samtal í gangi á milli stjórnvalda (Forseti hringir.) og aðila vinnumarkaðarins. En ég hef lagt á það áherslu að það gerist eins hratt og auðið er.