149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru eðlilegar spurningar, ekki síst út af þeim fréttum sem okkur berast í dag og hefur svo sem legið lengi fyrir að einhver röskun gæti orðið í flugstarfsemi til og frá landinu.

Mig langar að byrja á því að segja tvennt. Annars vegar: Ég vona að við séum enn sammála um að þegar fjármálaáætlun kemur fram skuli hún byggja á opinberum hagspám, að við styðjumst við opinber gögn, að við styðjumst við þær hagspár sem stjórnvöldum standa til boða frá sjálfstæðum, utanaðkomandi aðilum eins og Hagstofunni. Okkur ber að byggja á þeim. Ef við förum út af því spori munu framtíðarríkisstjórnir velja sér þá hagspá sem þeim þykir hentugust og gengur best að tala fyrir í þinginu með tilliti til þeirra málefna sem menn vilja beita sér fyrir. Ég held ekki að það væri gott að fara inn á það spor.

Mig langar líka að vekja athygli á því að við erum hér í fyrsta sinn að birta fráviksspá, sem er svar við ákalli frá fjármálaráði og að hluta til frá þinginu, að menn sýni frávik og geri grein fyrir þeim áhrifum sem ákveðin frávik gætu haft.

Hér er í raun spurt fyrst og fremst: Hvernig kæmi helst til greina að bregðast við ef forsendur efnahagsspár, eða hagspár, myndu bregðast?

Við því hef ég þetta svar: Þá kemur fyrst til álita hvort taka eigi upp stefnuna sjálfa, hvort slík atvik hafi orðið sem kalli á endurskoðun fjármálastefnunnar. Gert er ráð fyrir því í lögunum að þá gæti ráðherrann komið hingað inn í þingið með þingsályktunartillögu um það.

Hvað kæmi þar til álita? Ja, þar værum við væntanlega að tala um — segjum sem svo að hagvöxtur færi niður í 0% samkvæmt nýjum uppfærðum spám miðað við nýjan veruleika, sem við erum ekki enn farin að horfa í. Þá kæmumst við væntanlega að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að stefna að (Forseti hringir.) 0,9% afgangi af ríkinu í 0% hagvexti. Við myndum taka niður afkomuspána (Forseti hringir.) og ráðstafa þannig hluta afgangsins (Forseti hringir.) sem við eigum í dag.