149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi svör hæstv. ráðherra voru vægast sagt loðin. Það á líka við um ýmislegt í fjármálaáætluninni. Það er mjög loðið. Þó að eitt af grunngildum ríkisstjórnarinnar sé gegnsæi er greinilega ekki farið eftir því. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort teiknaðar hefðu verið upp sviðsmyndir af því hvernig taka ætti á málum ef glíma þyrfti við mikinn kostnað vegna launahækkana. Og það stendur í þessari bók. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það þá bara rangt að ef kjarabæturnar verða dýrari en 0,5% umfram verðlag þurfi ráðuneytin að glíma við þann kostnað? Er það rangt? Og hvers vegna er þá ekki búið að teikna upp sviðsmyndir?

Ég horfi sérstaklega til heilbrigðisstofnana, til starfsfólks þar, til stóru kvennastéttanna sem verið hafa undir miklu álagi frá hruni, og þessara köldu kveðja sem verið er að senda þeim. (Forseti hringir.) Ég vil biðja hæstv. ráðherra að verja síðustu mínútunni til að fara (Forseti hringir.) betur yfir þennan hluta með okkur.