149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið sérkennilegt að standa hér með tæplega 500 blaðsíðna fjármálaáætlun en vera spurður út í hluti sem eru einmitt ekki í fjármálaáætlun. En gott og vel.

Hér er spurt út í hvort unnar hafi verið einhverjar tilteknar sviðsmyndir. Svarið við því er nei. Ekki hefur verið unnin sviðsmynd af því tagi sem hv. þingmaður óskar eftir. Það verður þá mögulega verkefni nefndarinnar, eða ég veit ekki hvernig úr því spilast.

Aðalatriðið er að ríkið stendur að sjálfsögðu við gerða kjarasamninga og mun borga laun samkvæmt þeim. Að sjálfsögðu. En þegar margra ára tímabil er liðið erum við með þá stefnumörkun hér að í opinberum innkaupum og í opinberum launum eigi menn að leita hagræðis yfir tíma, m.a. með því að auka skilvirkni í veitingu opinberrar þjónustu með því að innleiða tæknilausnir sem geta mögulega leitt til aukins hagræðis. Í því felst ekkert annað en nútímavæðing (Forseti hringir.) opinberrar þjónustu meðan sumir vilja kannski hanga í gamla tímanum.