149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er skemmtilega ruglingslegt.

Förum aðeins yfir í annað sem er í lögum um opinber fjármál. Í 20. gr. er talað um að huga þurfi, hvað stefnu stjórnvalda varðar, að kostnaði, áhrifum á ávinning hverrar leiðar sem liggur fyrir stjórnmálunum í hvert skipti og bera saman ólíkar forsendur þeirra.

Nú enn og aftur er ekki kostnaðarmat á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessari fjármálaáætlun. Áhrifin sem það hefur grundvallast alla leið inn í ársskýrslur. Ársskýrslurnar verða gagnslausar ef við höfum ekki kostnaðarmat til að byggja á og mat á áhrifum og ávinningi þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin leggur fyrir. Þá er eftir á í ársskýrslunum hægt bara að segja: Okkur tókst alveg frábærlega til og náðum öllum áætlunum. En ef áætlanirnar eru ekki sagðar fyrir fram er ekki hægt að segja neitt eftir á um ávinning sem fjármunir sem við samþykktum leiddu til.