149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við verðum að leyfa okkur að horfa aðeins með víðari linsu á þessi mál. Ég nefni sem dæmi að þegar spurt er: Hvaða ávinningur fæst af því að bæta 4 milljörðum í samgöngumál, í vegaframkvæmdir sérstaklega? Þeirri fjárhæð verður fyrst og fremst forgangsraðað og ráðstafað í samræmi við samgönguáætlun þar sem dýpri svör eru veitt við þessu. Þegar við erum með samgönguáætlunina tökumst við á um forgangsröðun. Samgönguráði er sérstaklega ætlað að leggja til við ráðherrann, á grundvelli ákveðinnar forgangsröðunar, t.d. um þjóðhagslega hagkvæmni, þær samgönguframkvæmdir sem eiga að rata inn í áætlunina.

Ég nefni annað dæmi, lengingu fæðingarorlofs. Ég tel að við séum með það mjög skýrt kostnaðarmetið hér. Og hver er ávinningurinn af henni? Ja, hann er kannski útlistaður í lögum um fæðingarorlof og greinargerð með því frumvarpi á sínum tíma, í sérhvert sinn sem við höfum gert breytingar.

Ég held því að við munum ekki finna allan sannleikann í fjármálaáætluninni, (Forseti hringir.) við verðum að horfa aðeins víðar á málið.