149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Það ber alltaf að hrósa fyrir það sem vel er gert og er ánægjulegt að sjá hér frávikagreiningar eða áhættumat á efnahagslegum forsendum fjármálaáætlunar. Það er grundvallaratriði þegar horft er fram á veginn hvort útgjalda- og tekjuáform ríkissjóðs, sem hér eru sett fram, fái staðist.

Með leyfi forseta, langar mig að lesa upp efnahagslega áhættuþætti eins og þeir eru settir fram á bls. 116 í áætluninni.

„Ríkissjóður gæti orðið fyrir tekjutapi eða kostnaði við mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áfalla eins og aflabrests í sjávarútvegi, samdráttar í ferðaþjónustu, verðfalls á útflutningsmörkuðum eða efnahagslegra áfalla í helstu viðskiptalöndum. Þá veldur þróun gengis, verðlags, kjarasamninga og vaxta einnig óvissu fyrir afkomu ríkissjóðs.“

Hæstv. fjármálaráðherra verður að fyrirgefa mér, en mér finnst þetta vera betri lýsing á efnahagslegum veruleika en efnahagslegum áhættuþáttum þessarar fjármálaáætlunar. Þetta virðist meira og minna allt hafa raungerst. Hér varð ekki loðnuvertíð sem sú hagspá sem við vinnum út frá gerði ráð fyrir. Það er augljóst hverjum sem það vill sjá að staða ferðaþjónustunnar er mun alvarlegri og erfiðari en gert var ráð fyrir í forsendum viðkomandi þjóðhagsspár. Við sjáum Brexit-útgöngu án samnings og hið svokallaða harða Brexit raungerast fyrir augum okkar með tilheyrandi efnahagslegri óvissu. Verið er að endurskoða meira og minna allar hagspár í viðskiptalöndum okkar niður á við.

Hefði ekki verið nær lagi, hæstv. fjármálaráðherra, að vinna þessa fjármálaáætlun út frá fráviksspánni en ekki út frá gildandi hagspá?