149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið kemur eiginlega fram í fjármálaáætluninni. Ef hv. þingmaður hefði lesið aðeins lengra áfram þá segir í næstu setningu, með leyfi forseta:

„Við núverandi efnahagsaðstæður eru ekki vísbendingar um verulega áhættu af þessu tagi á tímabili áætlunarinnar þótt vissulega séu til staðar margar áskoranir tengdar tilteknum efnahagslegum úrlausnarefnum, svo sem niðurstöður kjarasamninga og þróun ferðaþjónustunnar, en nánar er vikið að þessum þáttum í kafla 2.“

Það er alveg rétt að við þurfum að aðlaga okkur að loðnubrestinum og taka það með í reikninginn þegar við horfum inn í framtíðina.

En það eru aðrir hlutir sem falla með okkur. Horfum t.d. á þessa staðreynd:

Loðnuvertíð hefur verið metin í útflutningsverðmætum einhvers staðar á bilinu 18–20 milljarðar, eitthvað svoleiðis. Nú eru vísbendingar um að fiskeldið hafi á örfáum árum vaxið svo mjög að útflutningsverðmæti fiskeldis, þá er ég að tala um bæði lax og bleikju og annað fiskeldi í landinu, slagi hátt upp í þá fjárhæð. En við ræðum það voðalega sjaldan hérna í þinginu þó að þar kunni að vera 14–15 milljarða útflutningsverðmæti á hverju ári sem bæst hafa við. Við fengum aðra loðnuvertíð, en það minntist enginn á það. Þetta er bara eitt lítið dæmi.

Það er sömuleiðis flókið að gera sér grein fyrir því — og ég held að við ættum að flýta okkur hægt, það var nú bara síðast verið að ræða það í fjölmiðlum í dag — nákvæmlega hvaða afleiðingar það myndi hafa ef rekstur flugfélags hætti eða veruleg röskun yrði hjá öðru íslenska flugfélaginu. Þá þarf að leggjast yfir það, skoða hvað aðrir ætla að gera til að bregðast við. Hvað verður um tímana sem losna á flugvellinum o.s.frv.? Hvað hefur þegar gerst? Og svona mætti áfram telja.

En ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr þessum áhættuþáttum, vegna þess að við gerum það ekki í þessari fjármálaáætlun. Ég vil bara halda því til haga að við byggjum á gildandi hagspám sem við sömdum ekki (Forseti hringir.) og við vekjum sjálf, að eigin frumkvæði, athygli á veikleikunum.