149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla því mjög harðlega að engin varfærni sé sýnd í þessari áætlun. Ég held að við þurfum aðeins að spyrja okkur: Hvað eru menn að segja? Hvað eru menn að færa hér inn í umræðuna? Hv. þingmaður segir að útlitið í hagkerfinu sé ekki eins bjart og áætlunin gerir ráð fyrir og að við þurfum að aðlaga okkur að því.

Við skulum þá bara spyrja okkur: Bíddu, hvernig eigum við að aðlaga okkur að því? Ég segi fyrir mitt leyti að ef hv. þingmaður er að meina að við eigum að taka afkomumarkmiðið til endurskoðunar — gott og vel. Ég get tekið undir það. Ef hér væri enginn hagvöxtur ættum við ekki að stefna að 0,9% afgangi á ríkisfjármálunum. En varfærnin í áætluninni birtist einmitt í því að við erum búin að taka til hliðar 30 milljarða í afgang, miðað við hagspárnar, sem er þá eins og stuðpúði, eins og sjóður sem hægt er að ganga á til að lina afleiðingarnar af því ef hagspárnar reynast ekki réttar. Það eru heilir 30 milljarðar strax á næsta ári.

Ef menn vilja reka ríkissjóð í járnum á næsta ári, vegna þess að hér er enginn hagvöxtur, (Forseti hringir.) getum við gert það, en við getum staðið við öll útgjaldaáformin án þess að þurfa að taka lán.