149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa góðu framsögu og fyrir fjármálaáætlunina sem við erum með hérna, tæpar 500 blaðsíður Ég ætla bara að segja að hún er ekki hrist fram úr erminni og vil hæla því í þessu tilviki að hún skuli vera komin fram á tíma. En um leið sný ég mér að hinu sem er ekki jafn jákvætt. Það er viðurkennt að á margan hátt er ákveðinn forsendubrestur fyrir því að leggja fram þessa fjármálaáætlun hér og nú miðað við þann óstöðugleika og þá óvissuþætti sem við horfumst í augu við í samfélaginu í dag.

Hæstv. fjármálaráðherra nefnir í sinni framsögu að við höfum séð fordæmalausan vöxt í hagkerfinu frá árinu 2010, hagkerfið vaxið um þriðjung á þessu tímabili, sem er náttúrlega stórkostlegur árangur. Þá liggur við að maður spyrji sig: Er það hagstjórninni að þakka eða er það kannski Eyjafjallajökull og Justin Bieber? Það er góð spurning.

Eins og staðan er í dag er eitt sem mér liggur verulega á hjarta og sem hefur vafist fyrir mér alveg frá því að ég fékk að heyra það í fyrrahaust að hér ætti að lækka bankaskatt um 7 milljarða kr. Í þeirri óvissu sem við horfumst í augu við í dag og þegar jafnvel er farið að planta ákveðnum óttafræjum í samfélaginu um að það eigi að fara að taka upp niðurskurðarhnífinn, þá er það sýnilegt að á næstu fimm árum mun afnám bankaskatts, upp á 7 milljarða á ári, verða heilir 35 milljarðar sem ekki fara í þjóðarbúið.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki hugsanlegt að við getum litið til þessa, t.d. miðað við þær ótrúlega breyttu forsendur sem við horfumst í augu við og þá miklu óvissu sem núna ríkir hjá okkur í hagkerfinu, og hreinlega dregið til baka þessa lækkun? Leyft þeim sem (Forseti hringir.) eru moldríkir að taka pínulítið meira þátt í því sem við erum að ganga í gegnum núna?