149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þessari umræðu vil ég fyrst nefna þjóðhagsforsendur, þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í febrúar síðastliðnum, sem er ein af grundvallarforsendunum þeirrar tekjuáætlunar sem birtist í þessari tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Óvissa ríkir um að forsendur standist og er því endurmat nauðsynlegt.

Samdráttur í okkar stærstu atvinnugrein, ferðaþjónustunni, er fyrirsjáanlegur vegna mikillar óvissu í flugrekstri auk þess sem kjarasamningar eru óleystir og loðnubrestur hefur orðið. Vandinn í flugrekstri hefur verið kunnur um allnokkurt skeið. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi sofið á verðinum og horft fram hjá vandanum án þess að grípa til aðgerða, eins og ber að gera lögum samkvæmt. Miðflokkurinn vakti athygli á málinu með sérstakri umræðu á síðasta ári um stöðu íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverki Samgöngustofu.

Fjármálaáætlun á að segja okkur hvernig ríkisbúskapurinn mun vera næstu fimm árin. Að baki því liggja tilteknar forsendur sem hafa því miður breyst mjög hratt, eins og við þekkjum. Þess vegna verður fjárlaganefnd að kalla eftir sérfræðiálitum og breyttri þjóðhagsspá. Ljóst er að tekjur ríkisins verða minni en hér er lagt upp með. Það mun væntanlega þýða að taka verður á því útgjaldamegin og því þarf að svara hvort við munum sjá hefðbundinn niðurskurð.

Í þessari endurskoðuðu fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að afkomuþróun ríkisrekstrarins verði í samræmi við markmið fjármálastefnunnar sem nær til ársins 2022. Lög um opinber fjármál gera ráð fyrir því að fjármálaáætlun byggist á gildandi fjármálastefnu hverju sinni og er stefnan því í senn ein af lykilforsendum fjármálaáætlunar og leið stjórnvalda til stefnumörkunar í opinberum fjármálum. Fjármálaáætlun hefur þannig í sér frekari útfærslu á markmiðum fjármálastefnu. Í ljósi þeirrar miklu óvissu þar sem fjölmargir þættir koma við sögu verður að setja spurningarmerki við þá fullyrðingu. Hún kallar á mun ítarlegri greinargerð af hálfu fjármálaráðherra, ekki síst í ljósi alvarlegrar stöðu í flugrekstri hér og hversu erfiðlega hefur gengið að ná samningum á almennum vinnumarkaði.

Í áætluninni segir að meginviðfangsefni við stjórn fjármála ríkissjóðs verði eftir sem áður að viðhalda og treysta þann stöðugleika í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera sem nú eru fyrir hendi. Einnig er mikilvægt í þessu sambandi að sýna varfærni í ákvarðanatöku ef til þess kæmi að efnahagshorfur yrðu lakari en reiknað er með í forsendum áætlunarinnar.

Tekið skal undir þetta sem ábyrgt sjónarmið, en um leið undirstrikar þetta viðhorf að nauðsynlegt er að halda þannig á málum að ekki verði veigamikil áföll í framkvæmd áætlunarinnar. Þegar loga rauð ljós verða að vera til virkar áætlanir um aðgerðir til að tryggja að ekki verði frávik frá fjárlögum eins og 34. gr. opinberra fjármála er ætlað að tryggja.

Herra forseti. Það er verkefni aðila vinnumarkaðarins að komast að samningsniðurstöðu um kjaramál. Það breytir því ekki að stjórnvöld geta haft veigamiklu hlutverki að gegna við að greiða fyrir aðgerðum sem er á þeirra færi. Slíkar aðgerðir gætu verið á sviði skattamála, velferðar- og húsnæðismála og ekki síst varðandi þau kjör sem fólki bjóðast á fjármálamarkaði. Þeir vextir sem bjóðast nú á óverðtryggðum húsnæðislánum eru rúmlega 6%. Í Svíþjóð eru þessir sömu vextir í kringum 1,5%, svo dæmi sé tekið. Það væri veruleg kjarabót ef vextirnir hér væru þeir sömu og í nágrannalöndunum. Það vekur nokkra undrun að ríkisstjórnin skuli ekki nýta það einstaka tækifæri sem hún hefur núna til að stokka upp fjármálamarkaðinn þegar ríkissjóður er eigandi tveggja stórra viðskiptabanka.

Á bls. 24 í áætluninni er fjallað um beitingu þjóðhagsvarúðar sem mikilvægs þáttar hagstjórnarinnar. Til að fylgja eftir þessum umbótum hefur verið lagt fram frumvarp um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Setja má spurningarmerki við að einni stofnun sé falið svo viðamikið verkefni sem hér um ræðir. Sú gagnrýni sem fram hefur komið á stjórnsýslu og stjórnarhætti þar á bæ, ekki síst frá sjálfu bankaráði bankans, hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni.

Á bls. 25 er rætt um skatttekjur af ferðaþjónustunni. Þar segir að tekjur ríkissjóðs séu lægri en ella sökum þess að stærsta útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustan, er ekki skattlögð í almennu þrepi virðisaukaskatts heldur því neðra. Síðan segir að skattastyrkir til greinarinnar af þessum toga nemi 27 milljörðum kr. samkvæmt fjárlögum. Það þykja mér fremur kaldar kveðjur frá ríkisstjórninni til atvinnugreinar sem borið hefur uppi hagvöxt undanfarinna ára og stendur undir 42% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Atvinnugrein sem gert hefur það að verkum að skuldir ríkissjóðs hafa lækkað verulega og að við búum nú við öflugan gjaldeyrisvarasjóð, þjóð sem átti engan gjaldeyri fyrir 10 árum síðan. Þetta eru greinilega skilaboð frá ríkisstjórninni um að hún stefni að því að hækka álögur á ferðaþjónustuna þegar mikil óvissa ríkir um greinina.

Hratt minnkandi vöxtur útflutnings er áhyggjuefni og er ein helsta ástæða þess að hægir á hagvexti. Þróun útflutnings er háð mikilli óvissu um þessar mundir og þeir óvissuþættir eru í meira mæli niður á við en upp á við, eins og fram kemur í áætluninni. Hagstofan gerir ráð fyrir að útflutningur vaxi um 1,6% í ár, sem yrði minnsti vöxtur útflutnings milli ára síðan 2010. Sú spá byggist engu að síður á forsendum sem geta hæglega breyst til hins verra eins og áður er nefnt. Nú þegar er orðinn alger loðnubrestur sem ekki var útséð um þegar spáin var gerð. Loðnubresturinn er áfall fyrir landsbyggðina eins og í Vestmannaeyjum og í Fjarðabyggð, auk þess sem það munar um 18 milljarða í útflutningstekjur.

Fjallað er um verðbólguþróun og spá Hagstofunnar í þeim efnum. Hagstofan spáir verðbólgu talsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næstu tveimur árum eða 3,8% árið 2019 og 3,3% árið 2020. Sú spá byggist á forsendum um 6,4% hækkun launavísitölu árið 2019 og 4,7% 2020. Telja verður, í ljósi stöðunnar á vinnumarkaði og kröfugerða verkalýðsfélaganna, fremur ósennilegt að það gangi eftir. Launahækkanir verði hærri, sem mun óhjákvæmilega leiða til hærri verðbólgu.

Á bls. 43 er fjallað um vinnumarkaðinn. Ég vil í því sambandi koma aðeins inn á það að Miðflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á atvinnuþátttöku aldraðra. Það er full ástæða til þess að fella niður gildandi 100.000 kr. frítekjumark aldraðra á atvinnutekjur aldraðra.

Á bls. 74 er yfirlit yfir skuldaþróun ríkisins. Hér er um góða framsetningu að ræða, sem ber að þakka fyrir. Lækkun skuldahlutfallsins hefur gengið hraðar fyrir sig en fjármálastefna gerði ráð fyrir og er það vissulega góður árangur. Í tengslum við síðustu fjármálaáætlun kölluðu nefndarmenn í fjárlaganefnd mikið eftir því að gerðar yrðu áætlanir eða sviðsmyndagreiningar um hvernig hlutirnir gætu litið út ef forsendur myndu breytast. Úr þessu hefur verið bætt og ber að þakka fyrir það. Nauðsynlegt er að halda áfram á sömu braut.

Í rammagrein 3 á bls. 58 er að finna fráviksmynd. Á bls. 59 er að sama skapi tafla sem sýnir skarpa dýfu í hagvexti. Sú mynd gerir ráð fyrir loðnubresti og fækkun ferðamanna um 5% í staðinn fyrir 2–3%. Ég tel að spáin sé nærri lagi og ljóst að loðna verður ekki veidd á þessari vertíð. Og allt stefnir í meiri fækkun ferðamanna. Það veikir þessa spá að mínu mati að hún gerir ráð fyrir mjög litlum breytingum hvað atvinnuleysi varðar og er rétt að minna á að 68% stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna telja að aðstæður á vinnumarkaði muni versna á næstu sex mánuðum. Um síðustu áramót töldu 30% fyrirtækja að þau myndu fækka starfsfólki á næstu mánuðum.

Hvað tekjuhliðina varðar er áætlað að frumtekjur ríkissjóðs, þ.e. tekjur án vaxtatekna, aukist um 46 milljarða frá áætlun ársins 2019 og verði 932 milljarðar árið 2020. Miðað við þá miklu óvissu sem fram undan er í efnahagsmálum hef ég efasemdir um að það gangi eftir.

Á bls. 76 og áfram er rætt um skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að kolefnisgjald verði hækkað þriðja árið í röð. Miðflokkurinn hefur gagnrýnt stefnuleysið ríkisstjórninni í þessari skattlagningu. Sá skattur bitnar sérstaklega illa á landsbyggðinni nú.

Ríkisstjórnin áformar í áætluninni frekari breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis frá og með næsta ári og bætist það ofan á fyrirhuguð veggjöld. Miðflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á að skattar og gjöld á bifreiðaeigendur verði lækkuð og mun flokkurinn ekki styðja veggjöld nema skattar á bifreiðar og eldsneyti verði lækkaðir á móti.

Síðan er það áfram forgangsefni ríkisstjórnarinnar að lækka bankaskattinn, eins og fram hefur komið. Það er ekki eina lækkunin því að um áramótin lækkaði gjald bankanna til Fjármálaeftirlitsins og í byrjun þessa mánaðar mælti fjármálaráðherra fyrir frumvarpi um lækkun gjalds bankanna í Tryggingarsjóð innstæðueigenda.

Á bls. 83 segir að skattalækkunum á bankana sé ætlað að veita bönkunum svigrúm til að lækka útlánavexti sem kæmi fram í bættri afkomu heimila sem og bættu rekstrarumhverfi fyrirtækja. Hér er um mikla óskhyggju af hálfu fjármálaráðherra að ræða að mínum dómi. Vísbendingar eru um hið gagnstæða, að bankar ætli að hækka vexti.

Herra forseti. Ég sé að tíminn er naumur og hefði viljað koma inn á fleiri atriði en hef vonandi tækifæri til þess síðar við þessa umræðu. (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég segja það að þessi endurskoðaða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er lituð af meiri bjartsýni en efni standa til. (Forseti hringir.) Alvarlegir veikleikar eru í mikilvægum forsendum áætlanirnar. (Forseti hringir.) Af þeim sökum hef ég miklar efasemdir um að hægt sé að ná þeim árangri sem stjórnvöld stefna að og birtast okkur í þessari áætlun.