149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil kannski nefna fyrst og fremst tvennt úr ræðu hv. þingmanns. Í fyrsta lagi þær ábendingar sem fram komu um að fara þyrfti varlega í að leggja auknar álögur á ferðaþjónustuna í landinu. Ég get vel tekið undir það og ég tel reyndar að það sé sleginn nokkuð varfærinn tónn í áætluninni um þau áform þó að okkur sé mikið í mun að ljúka endurskoðun þeirra áforma, eins og boðað hefur verið, og svara því svona til næstu ára eða helst sem lengstrar framtíðar, með hvaða hætti við sjáum helst fyrir okkur að standa með gjaldtöku undir uppbyggingu innviða. Ég er sammála því hjá hv. þingmanni að menn verða að tímasetja svona aðgerðir mjög vel.

En síðan vil ég aftur víkja orðum mínum að horfunum í hagkerfinu. Þá er það spurningin hvernig hv. þingmaður sér þetta. Ef hægir meira á en spáð er — við erum að spá því að við séum í minnsta vextinum í ár á áætlunartímabilinu og vöxturinn í ár verði þannig sá minnsti í mörg ár. Þá er spurningin hvernig hv. þingmaður telur að ríkisstjórnin hefði átt að bregðast við. Þar erum við komin inn í umhverfi laga um opinber fjármál. Við höfum aldrei látið reyna á það að virkja 10. gr. laganna sem segir að hægt sé að taka fjármálastefnuna hreinlega til endurskoðunar og endurgera afkomumarkmiðin.

Mig langar að vita hvort hv. þingmanni þætti það vera valkostur að segja hreinlega: Við skulum ekki miða að svona mikilli afkomu heldur þurfum við að aðlaga okkur með því að lækka afkomumarkmiðið enda séu aðstæður í hagkerfinu með þeim hætti.