149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Vissulega er það svo að lög um opinber fjármál eru ný af nálinni og við höfum verið að feta okkur áfram með hvaða hætti best er að standa að málum. En það getur gerst ef þessar forsendur ganga eftir og við sjáum fram á verulegan samdrátt í efnahagslífinu, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, og ég vona svo sannarlega að góð lending náist t.d. í flugsamgöngum, að þá getur sú staða vissulega komið upp að endurskoða þurfi fjármálastefnuna.

En það sem skiptir kannski mestu í þessu, og hæstv. ráðherra spurði hvað Miðflokkurinn hefði gert í þessum efnum, er að áætlanir verða náttúrlega að liggja fyrir, og hæstv. ráðherra hefur sagt að þær séu til staðar, um það hvernig brugðist verði við ef forsendur sem eru nú lagðar til grundvallar koma til með að bresta. Þá er gott að hafa fráviksspána sem ég er ánægður með að skuli vera í þessari áætlun í fyrsta sinn. Hún skiptir náttúrlega verulegu máli og sýnir að menn eru með hugann við það hvað gæti gerst og eru væntanlega þá með einhverja áætlun um hvernig bregðast eigi við.

Stutta svarið er kannski einfaldlega það að nálgast þessi málefni með þeim hætti að menn hafi plan A og plan B um hvernig bregðast beri við.

En eins og hæstv. ráðherra sagði; að í allri ákvarðanatöku fari menn varlega og (Forseti hringir.) í áætlunargerð hvað varðar útgjaldahlið ríkisins.