149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ég tek undir með honum að vissulega skiptir miklu máli að það sé góður afgangur af ríkissjóði og að við höfum svigrúm til að bregðast við óvæntum aðstæðum og óvissu í efnahagsmálum.

Þar skiptir náttúrlega líka töluverðu máli að tekist hefur að lækka skuldir ríkissjóðs verulega á skömmum tíma sem, eins og ég segi, skiptir miklu máli þegar bregðast þarf við aðstæðum sem geta komið upp.

En það er spurning með þessar spár, sem ég hef svolítið rætt um. Nú hefur það gerst mjög hratt að við stöndum frammi fyrir mikilli óvissu. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að fyrir síðari umr. kalli fjárlaganefnd til sérfræðinga og við fáum viðbótargögn og endurskoðaðar spár svo hægt sé að rýna í stöðuna eins og hún er.

Væntanlega mun skýrast, bara jafnvel á næstu dögum, hvort takist að eyða þeirri óvissu sem ríkir í flugsamgöngum.

En engu að síður er enn til staðar sú óvissa sem felst í því að hér hefur ekki náðst niðurstaða í kjaraviðræðum. Það getur vissulega breytt forsendum ef verkföll standa lengi og ferðamönnum fækkar. Við erum að ganga inn í bókunartímabil í ferðaþjónustunni þannig að þarna eru vissulega miklir óvissuþættir sem verður að taka tillit til.

En ég skal taka undir það með hæstv. ráðherra að við erum betur í stakk búin til að mæta þessu. Að sjálfsögðu ber að fagna því. En (Forseti hringir.) það skiptir þá líka máli að taka réttar ákvarðanir og vera ekki ákvarðanafælin þegar að ögurstundu kemur.