149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir prýðisræðu. Ótrúlegt hvernig hv. þingmanni tókst í raun og veru að rekja jafn mikið af áætluninni, umfangsmikilli áætlun, og tíminn gefur tilefni til.

Það er einkum þrennt sem var kannski meginþunginn í ræðu hv. þingmanns. Það sneri að ferðaþjónustu, þeirri óvissu sem vissulega er gerð grein fyrir í greinargerð með áætluninni og eðli máls hefur verið framan af í umræðunni, og svo það sem hv. þingmaður kallaði hefðbundinn niðurskurð.

Fyrst að ferðaþjónustunni. Í upphafi kjörtímabils var fallið frá áformum um að hækka álögur á ferðaþjónustuna. Ég tek undir með hv. þingmanni, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerði, að öll slík áform þarf að undirbúa og tímasetja mjög vel. Við þær kringumstæður sem við búum í dag og óvissu þarf að huga vel að því.

Varðandi óvissuna rakti hv. þingmaður hana ágætlega, óvissuna sem er uppi í flugrekstrinum, í aflabresti, í alþjóðlegum efnahagshorfum o.s.frv. En er það ekki einmitt þess vegna sem við höfum búið svo um í lögum um opinber fjármál og þeirri umgjörð að setja þetta í áætlunarferli? Einmitt til þess að við höfum skýrari mynd til að takast á við óvissu? Vegna þess að við búum í sveiflukenndu hagkerfi og það eru í rauninni bara tveir möguleikar, annars vegar fullvissa og hins vegar óvissa. Við munum alltaf búa við (Forseti hringir.) búhnykki og bresti á víxl.