149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir andsvarið og þessar hugleiðingar. Vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að lög um opinber fjármál, sem eru tiltölulega ný og við svona að fikra okkur áfram við hvernig virka á tímum sem þessum þar sem óvissa er fram undan. Ég held að lögin veiti ágæta leiðsögn í þeim efnum að mikilvægt er að afgangur sé af fjárlögum o.s.frv. og að við förum ekki fram úr okkur, vegna þess að við verðum að geta búið í haginn fyrir mögru árin, ef svo má segja. Þar veita lögin vissulega ágætt svigrúm, leiðbeiningar, hvað það varðar. En lögin mega heldur ekki vera þannig úr garði gerð að ekki sé hægt að bregðast hratt og vel við þegar aðstæður fara á verri veg, eins og t.d. í þeirri óvissu sem við búum við núna.

Nú getur það bara skýrst á nokkrum dögum að ef ekki næst að rétta við flugrekstur flugfélagsins WOW, hvort við sjáum fram á aukið atvinnuleysi, hvort við sjáum fram á jafnvel gengisbreytingar, minnkandi hagvöxt o.s.frv. Stutta svarið við þessu er kannski það að, jú, það er gott að hafa lögin sem ákveðna leiðsögn, en við verðum líka að geta brugðist hratt og vel við í aðstæðum sem geta komið skyndilega upp.