149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni.

Hefðbundinn niðurskurður? Þetta var sett fram kannski sem spurning, má segja, til meiri hlutans; um hvernig hann og hæstv. fjármálaráðherra sæju fyrir sér niðurskurð, ef til hans kæmi. Væntanlega er þá hefðbundinn niðurskurður niðurskurður í velferðarmálum og mun hann þá væntanlega hafa áhrif á almenning í landinu.

Vonandi kemur ekki til þess og eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan höfum við þá afgang af fjárlögum sem væri hægt að milda höggið með. Ég held að mikilvægt sé að það sé áætlunin, svo komi ekki til þessa svokallaða hefðbundna niðurskurðar í velferðarmálum og í ýmsu sem snýr að þjónustu í þeim efnum við almenning, hækkun á gjaldskrám o.s.frv.

Þetta er það sem ég varpaði fram í ræðu minni, vegna þess að það er jú óvissa um hvernig við getum tekist á við það ef töluverð lækkun verður á tekjum ríkisins. Þar af leiðandi kemur það þá inn í, eins og við segjum hér og höfum farið yfir, að lög um opinber fjármál vísa svolítið veginn í þeim efnum og setja okkur þau markmið sem við höfum verið að vinna eftir, að það sé afgangur af fjárlögum og ráðdeildarsemi, sem er ákaflega mikilvæg, sérstaklega í þeim aðstæðum sem eru fram undan, og svigrúm ríkissjóðs, skal tekið undir, er gott til að bregðast við þessu.

En öll óvissa er auðvitað af hinu verra og óþægileg. Þess vegna höfum við þessar fráviksspár sem ég hefði viljað sjá að hefðu verið bornar svolítið meira saman við aðrar spár, (Forseti hringir.) sem hafa komið fram sem gefa dekkri mynd af ástandinu en þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.