149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er í raun furðulegt að ræða fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem lifði vart í fimm klukkustundir áður en forsendur fyrir henni brustu. Hagspáin sem er undirliggjandi gerði ekki ráð fyrir loðnubresti og ekki heldur afleiðingum af miklum vanda WOW air og svo veit enginn hvernig kjarasamningarnir verða.

Farþegaáætlanir sem eru undirliggjandi í áætluninni eru frá því í janúar og gera ráð fyrir fækkun ferðamanna upp á 2,4%, en nú er nokkuð ljóst að fækkunin verður meiri, með aukaverkunum á tekjur ríkissjóðs. Áætlunin sýnir þó áherslur hæstv. ríkisstjórnar og stefnu og út frá þeim sjónarhóli er mögulegt að taka samtalið, þótt ljóst sé að óbreytt verður fjármálaáætlunin ekki samþykkt.

Fjármálaáætlun er lögð fram á grunni fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar fyrir kjörtímabilið sem samþykkt var á Alþingi fyrir um ári. Þannig eru stjórnvöld bundin í báða skó af því að skila þeim afgangi af ríkissjóði sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa samþykkt, eða 0,9% af landsframleiðslu á næsta ári og 0,8% árin þar á eftir.

Þannig verður afgangur af ríkissjóði að vera 29 milljarðar kr. á næsta ári, hvað sem tautar og raular. Nema ef svo illa vildi til að hér yrði efnahagshrun eða þjóðarvá sem ekki væri hægt að bregðast við með öðrum hætti en að breyta stefnunni.

Þetta er orðað skýrt í 10. gr. laga um opinber fjármál. Stjórnvöld eru þannig bundin af því að tryggja að afkoma hins opinbera verði í takt við samþykkta fjármálastefnu.

Margir höfðu uppi varnaðarorð þegar fjármálastefna ríkisstjórnarinnar var til umræðu. Alvarlegustu athugasemdirnar komu frá fjármálaráði, sem hafði áhyggjur af því að ríkisstjórnin gæti fest í spennitreyju eigin stefnu. Svona afkomumarkmið koma ekki mikið við stöðu mála í uppsveiflu þegar nóg er til og afgangur jafnvel meiri en ráð var fyrir gert. Það er í niðursveiflu eins og nú sem fjármálareglan og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar fer að bíta. Þá reynir á viðbrögð stjórnvalda, hvort þau hafa hag þeirra sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda fremstan eða hvort draumur Sjálfstæðismanna um minni ríkisumsvif og aukinn einkarekstur í velferðarþjónustu fáist uppfylltur í gegnum þrengingar þjóðarinnar.

Tekjustofnar ríkisins á síðastliðnum uppgangsárum hafa markvisst verið veiktir, svo sem með afnámi auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og lækkun neysluskatta. Stjórnvöld hafi ekki sótt auknar tekjur til ferðaþjónustunnar sem á örskömmum tíma er orðin stærsta atvinnugrein á Íslandi og sú sem nýtur einnig hæstu skattastyrkja, eða um 27 milljarða kr. á árinu 2019, eins og fram kemur í fjármálaáætluninni.

Augljóst er þegar búið er að veikja svo tekjustofnana, sem gera á enn frekar samkvæmt fjármálaáætluninni, hvað gerist þegar hægir svo á í efnahagslífinu. Þá munu tekjur ríkissjóðs ekki duga til að fjármagna nauðsynleg útgjöld og til að halda afkomu ríkissjóðs innan fjármálastefnunnar.

Þess vegna þarf að auka aðhald eða skera niður verkefni og þjónustu.

Til að halda ríkisfjármálunum innan fjármálastefnunnar er gert ráð fyrir eftirfarandi aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálaáætluninni: Í fyrsta lagi er um að ræða almenna aðhaldskröfu sem er 2% á árunum 2020–2022 en 1% á árunum 2023–2024. Aðhaldskrafan er því upp á 5 milljarða kr. strax á næsta ári.

Í öðru lagi lægri launabætur. Launabætur til stofnana á árunum 2020–2022 nemi einungis 0,5% umfram verðlag. Þetta þýðir að verði launaþróun umfram 3,8% á árinu 2020 verða viðkomandi ráðuneyti að mæta þeim umframkostnaði með niðurskurði. Þessi aðhaldsaðgerð bitnar þyngst á velferðarþjónustunni, eins og heilbrigðisstofnunum þar sem laun eru stór hluti rekstrar. Með lausa kjarasamninga hjá bæði læknum og hjúkrunarfræðingum og stóru kvennastéttunum innan heilbrigðiskerfisins getur þetta haft talsverð áhrif á rekstur heilbrigðisstofnana.

Þetta aðhaldsmarkmið virðist sakleysislegt en raunin er sú að verði launahækkun, t.d. 4,8% á árinu 2020, verða ráðuneytin að skera niður um rúma 2 milljarða kr. 5,8% þýðir 4 milljarðar í niðurskurð sem lendir að stærstum hluta á velferðarþjónustunni. Og hverjum getur þótt þessi aðhaldskrafa ásættanleg? Kannski hæstv. heilbrigðisráðherra? Ég hefði fyrir stuttu síðan átt erfitt með að trúa því. En hér er þessi forsenda fjármálaáætlunarinnar engu að síður og hefur því miður fengið blessun allra stjórnarflokkanna.

Í þriðja lagi er aðhaldskrafan fólgin í því að ekki á að verðbæta allar vörur eða þjónustu. Talað er um að kaup á tilteknum vörum og þjónustu verði ekki verðbætt með tilliti til þróunar launa og verðlags á árunum 2020–2022 sem þýði í raun lækkun til einhverra liða, sem ekki eru nánar tilgreindir.

Ríkisstjórnin virðist hafa bitið sig fasta í skattbreytingar sem kynntar voru í febrúar með tæpri 7.000 kr. skattalækkun til allra sem eru með 330.000 kr. eða meira í laun. Allir fá sömu tölu, líka þeir sem eru með milljónir á mánuði. Verkalýðsfélögin hafa hafnað þessari breytingu sem aðgerð til að liðka til fyrir kjarasamningum. Hver hefur beðið um slíka rausn við efnaðasta fólkið? Ekki það sjálft og alls ekki hinir sem kalla eftir því að betur sé farið með almannafé og að þeir séu látnir njóta aðgerða ríkisins sem þurfa á þeim að halda.

Svo á að endurskoða skattstofn fjármagnstekjuskattsins til að færa skattlagninguna nær því að skattleggja raunávöxtun. Þó að vitað sé að afar erfitt er að útfæra þessa hugmynd á að halda henni til streitu, enda mun hún gagnast fjármagnseigendum sem virðast vera undir sérstökum verndarvæng ríkisstjórnarinnar. Það á að lækka bankaskattinn úr 0,376% í 0,145% í fjórum áföngum á árunum 2020–2023.

Eitthvað er rætt um að með þessu eigi að stuðla að lægri vöxtum en engin trygging er fyrir því að þeir skattar verði til þess. Hér á landi hafa verið háir vextir, bæði fyrir og eftir bankaskatt, og mér finnst að á meðan ekki er hugsað fyrir öðrum tekjuöflunarleiðum eigi að halda bankaskattinum um sinn. Hvítbókarhöfundarnir mæltu með því að leggja skattinn niður til að gera bankana söluvænni. Þá ættu nýir eigendur væntanlega aukna gróðavon. Því er ástæða til að spyrja hvort það sé hin raunverulega ástæða fyrir því að í ríkisfjármálaáætluninni sé þessi ráðstöfun lögð til.

Svo kemur sagan endalausa. Áform eru um að skoða leiðir til gjaldtöku á ferðamenn í samráði við haghafa. Þau áform hafa verið uppi í mörg undanfarin ár án þess að til eðlilegrar gjaldtöku á ferðaþjónustu hafi komið. Dettur einhverjum í hug að þeirri eðlilegu gjaldtöku verði komið á við þessar aðstæður sem nú ríkja í ferðaþjónustunni, þar sem stjórnvöld hafa ekki haft dug til að gera slíkt í betra árferði?

Það á að lækka tryggingagjaldið samkvæmt áætlun, sem er ágætt, og skattleggja ökutæki og eldsneyti og beita hvötum til kaupa á vistvænum bílum. Uppsöfnuð áhrif þessara skattkerfisbreytinga á tekjur ríkissjóðs nema lækkun um rúmlega 15 milljarða kr. á ársgrundvelli samkvæmt áætluninni þegar þær eru allar komnar til framkvæmda. Ef gera má ráð fyrir að tekjuskattslækkunin nemi 14 milljörðum og lækkun bankaskatts um 7 milljörðum er ljóst að þessi áætlun mun ekki ganga upp. Því að ef svo ætti að vera þyrfti gjaldtakan af ferðamönnum að vera mjög rífleg. Hún verður engin. Það vita allir. Og miklar álögur á ökutæki. Hvorugt er í sjónmáli.

Engin áform eru um frekari umbætur á barnabótakerfinu og áfram er það markmið stjórnvalda að barnabótakerfið sé fyrst og fremst fátækrastyrkur. Í ár eru útgjöld til barnabóta svipuð að raunvirði og þau voru árið 2013, en þá fengu 13 þúsund fleiri fjölskyldur barnabætur en í ár.

En það á að lengja fæðingarorlofið og það er gott. Það var árið 2013 sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn slógu af áætlanir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um 12 mánaða fæðingarorlof. Nú á að lengja það og auðvitað gleðjumst við Samfylkingarfólk, þó að þau börn sem fæðst hafa á undanförnum sex árum hefðu fengið að njóta þessa ef jafnaðarmenn hefðu fengið að ráða. Engin áform eru um hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sem er hins vegar bagalegt.

Það á að skilja aldraða og öryrkja eftir, eina ferðina enn. Þó að hér sé talað um 4 milljarða viðbót vegna breytinga á greiðslukerfi almannatrygginga er það varla upp í nös á ketti, forseti, leyfi ég mér að segja.

Stofnframlög til almennra íbúða eru aukin um 3,8 milljarða en heildarútgjöld til húsnæðisstuðnings lækka hins vegar. Það eru því engin áform sjáanleg um að endurreisa vaxtabótakerfið eða stuðningur við fyrstu kaupendur.

Nú er tíminn að fara frá mér. Ég er ekki hálfnuð með ræðu mína.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Það er margt við þessa fjármálaáætlun að athuga og ekki síst það að grunngildin sem undir hana eiga að byggja eru virt að vettugi, t.d. gagnsæi. (Forseti hringir.) Fjármálaáætlunin er afar ógagnsæ, og það er mjög bagalegt.