149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er engin leyniaðhaldskrafa. Það hefur gjarnan verið aðhaldskrafa í gegnum tíðina í hverjum einustu fjárlögum sem við höfum tekist á við á þinginu, mismikil, eftir því um hvað er að ræða, eins og hv. þingmaður þekkir. Það að vera með 5 milljarða aðhaldskröfu í ríflega 930 milljarða umfangi er kannski ekki þannig að við getum ekki ráðið við það.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að við getum kallað eftir áætlunum og svörum og það gerum við væntanlega þegar við tökum málið til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd. En við skulum heldur ekki gleyma að hluti af því sem t.d. varasjóður býr við er að geta brugðist við ef launakröfur fara einmitt umfram það sem gert er ráð fyrir í áætluninni.

Ég stend við það að mér finnst sérstakt að tiltaka hér ákveðnar stéttir og segja það út í kosmóið að þær geti átt von á því að fá ekki þá samninga sem óskað er eftir ef hækkunin er umfram þetta, vegna (Forseti hringir.) þess að ekki verði við það staðið. Ég lít þannig á.