149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég verði að biðja hv. þingmann að hlusta vel á það sem ég segi. Ég hef ekki sagt að ekki eigi að standa við samninga sem gerðir verða við ríkisstarfsmenn. Ég hef hins vegar sagt að ef gerðir verði góðir samningar, sem þeir væntanlega vonast til, þá þurfi stofnanirnar, og ráðuneytin, sem þeir vinna hjá að bera umframkostnaðinn sem fer yfir 3,8%. Og ég heyri það á máli hv. þingmanns að hún veit það ekkert frekar en ég eða frekar en nokkur hér inni hversu hár sá reikningur verður og hvernig á að taka hann af þjónustunni og hverjir þurfa að bera kostnaðinn.

Er ekki líklegt að það verði blanda af niðurskurði og álagi á ríkisstarfsmenn? Þessu svara stjórnarliðar ekki. Þeir setja fram svona aðhaldskröfu (Forseti hringir.) sem er innbyggð og (Forseti hringir.) verður að taka á eftir niðurstöðu kjarasamninga, (Forseti hringir.) en hafa ekki hugmynd um (Forseti hringir.) hvað þetta mun þýða fyrir þá sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda. Það er til skammar.