149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Svar hv. þingmanns kemur nokkuð á óvart því að það er bara ekki það sem segir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar segir bara skýrum orðum: Ríkisstofnanir munu ekki fá launahækkanir umfram 0,5% hækkun umfram verðlag bættar í fjárframlögum. Að þurfa að skera niður á móti þýðir — af því að í tilfelli langflestra ríkisstofnana er langstærsti einstaki kostnaðarþátturinn laun — að þessar ríkisstofnanir munu þurfa að segja upp starfsfólki sínu á móti kostnaðarhækkunum umfram þetta. Það er það sem stendur þar skýrum orðum.

Það eru áhugavert líka að heyra sjónarmið hv. þingmanns til þess sem þegar hefur komið fram í umræðunni, að efnahagsforsendur virðast vera brostnar og bregðast þurfi við, annaðhvort með því að breyta fjármálastefnu, sem reyndar eru sett mjög stíf skilyrði í lögum, eða annað tveggja að hætta við skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar eða útgjaldaaukningaráform ríkisstjórnarinnar. Hvort myndi hv. þingmaður kjósa? (Forseti hringir.) Eigum við að hætta við að lækka skatta? Eigum við að hætta við að auka útgjöld?