149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það liggi ljóst fyrir hvað yrði gert ef ég réði ein. Það er alveg klárt mál. Ég myndi að sjálfsögðu hætta við að lækka skatta, en það er nú þannig að maður ræður ekki alltaf einn.

Hins vegar er það svo, eins og hv. þingmaður benti á, að ég tel að við verðum í vinnunni að óska eftir því að fá nánari greiningar á því hvað það myndi þýða ef samið yrði um einhver prósent umfram það sem gert er ráð fyrir í forsendum.

Það er þó þannig að út frá hagspám eru gefnar ákveðnar forsendur í áætluninni, hvort sem við erum að tala um laun eða eitthvað annað. Við getum ekki sagt sisvona að við leggjum hreinlega til að laun hækki um 10%, að það séu forsendurnar í áætluninni. Þá erum við, eins og hv. þingmaður veit, að stíga stórt skref. Hér er auðvitað miðað við þær forsendur sem hagspáin gefur okkur þar til annað kemur í ljós. Þá verðum við að takast á við það og ég tel að við þurfum að fá upplýsingar um það í nefndarvinnunni.