149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég haldi aðeins áfram með þetta. Það er tvennt ólíkt að segja að ráðuneytin eigi að bera kostnaðinn af launahækkunum og að segja að brugðist verði við þeim. Það stendur einfaldlega í fjármálaáætlun. Við erum að tala um fjármálaáætlun, þar er stefna stjórnvalda sett fram til næstu fimm ára.

Mér finnst einmitt mjög áhugavert það sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra áðan þar sem almenni varasjóðurinn vex um 2,5 milljarða á næsta ári og um 20 milljarða á síðustu tveimur árum áætlunarinnar, sem er mjög áhugavert. Ástæðan sem þar var gefin var meiri óvissa í lokin. En það sem ég sé hins vegar er skortur á stefnu.

Það er ekki verið að setja þessa fjármuni inn á málefnasviðin samkvæmt stefnu stjórnvalda heldur er þarna afgangur sem við vitum ekki hvað við ætlum að gera við og setjum hann bara þar af leiðandi í almenna varasjóðinn, sem við vitum vel að er ekki tilgangur almenna varasjóðsins. Það eru skýrar reglur um hvernig á að taka fé úr almenna varasjóðnum. Ég vildi fá álit hv. þingmanns á þessu.